Fréttir

Samruni Haga, Olís og DGV samþykktur

30. nóvember 2018

Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt samruna Haga, Olís og fasteignafélagsins DGV, en Arctica Finance ásamt Landslögum var ráðgjafi Haga. Kaupsamningar um viðskiptin voru undirritaðir í apríl 2017 með fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar, samþykki Samkeppniseftirlitsins og samþykki hluthafafundar Haga fyrir aukningu hlutafjár. Fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar var aflétt í júlí 2017 og hlutafjáraukning var samþykkt á aðalfundi Haga í júní 2017.

Í september 2018 var undirrituð sátt milli Haga og Samkeppniseftirlitsins vegna kaupa Haga á öllu hlutafé í Olíuverzlun Íslands hf. og fasteignafélaginu DGV ehf. Eftir undirritun sáttarinnar fór fram mat á kaupendum þeirra eigna, sem Högum var gert að selja samkvæmt sáttinni, en þá þegar lágu allir kaupsamningar fyrir. Í október 2018 var tilkynnt að kaupendur eignanna hefðu verið metnir hæfir og að þeir uppfylltu öll skilyrði sáttarinnar. Nú hefur Samkeppniseftirlitið metið kaupendur og einnig komist að þeirri niðurstöðu að kaupendur uppfylli öll skilyrði sáttarinnar og að þeir séu hæfir. Þar með hefur öllum fyrirvörum verið aflétt og samruninn kemur því til framkvæmda.

Niðurstaðan er ánægjuleg. Samruninn skapar fjölmörg tækifæri til að bæta þjónustu við viðskiptavini sameinaðs félags. Rekstur Olís fellur mjög vel að rekstri Haga og skapar einstakan grundvöll til sóknar og ekki síður til aukinnar hagkvæmni í breyttu samkeppnisumhverfi. Ráðgjafar Haga hafa metið samlegðaráhrif samrunans um ISK 600 m á ársgrundvelli.

Kaupverð Olís og DGV er ISK 10.668 m. Alls eru ISK 5.396 m greiddar með reiðufé og auk þess afhentir 111 millj. hlutir í Högum að andvirði ISK 5.272 m. EBITDA Olís árið 2017 var um ISK 2.300 m og nettó vaxtaberandi skuldir rúmar ISK 5.000 m. Reiknað er með að vaxtaberandi skuldir samstæðunnar verði um ISK 12.000 m eftir samruna.