Upplýsingar

Flokkun viðskiptavina

Lögum samkvæmt ber fjármálafyrirtækjum að flokka viðskiptavini eftir reynslu þeirra og þekkingu. Um er að ræða þrjá meginflokka fjárfesta; almenna fjárfesta, fagfjárfesta og viðurkennda gagnaðila.

Almennir fjárfestar

Þeir viðskiptavinir Arctica Finance sem flokkaðir eru sem almennir fjárfestar njóta fullrar verndar samkvæmt lögum. Í því felst m.a. að Arctica Finance mun veita viðskiptavinum í flokki almennra fjárfesta upplýsingar um Arctica Finance og þá þjónustu sem félagið býður, þá fjárfestingarkosti sem í boði eru og þá áhættu sem þeim fylgja, auk upplýsinga um þau gjöld og þóknanir sem fylgja hverjum fjárfestingarkosti. Þegar almennum fjárfesti er veitt þjónusta í formi fjárfestingarráðgjafar eða eignastýringar mun fara fram mat á því hvort tiltekin tegund fjármálagerninga sé samrýmanleg hagsmunum viðkomandi viðskiptavinar. Í slíkum tilvikum er mat lagt á þekkingu, reynslu og fjárhagslegan styrk viðskiptavina, auk markmiða með viðskiptum.

Feli þjónusta Arctica Finance í sér annars konar þjónustu tengda verðbréfaviðskiptum en eignastýringu og fjárfestingarráðgjöf mun félagið leggja mat á þekkingu og reynslu viðskiptavina í því skyni að meta hvort þeir búi yfir nauðsynlegri vitneskju til að gera sér grein fyrir þeirri áhættu sem viðskiptunum fylgja. Athygli er vakin á því að þeim viðskiptavinum Arctica Finance sem flokkaðir eru sem almennir fjárfestar er heimilt að óska eftir því við Arctica Finance að verða flokkaðir sem fagfjárfestar. Við slíka flokkun afsala viðskiptavinir sér að hluta þeim réttindum og vernd sem þeir myndu annars njóta samkvæmt lögum en á móti koma frekari möguleikar á fjárfestingum í flóknum fjármálagerningum.

Til að slík beiðni verði tekin til greina verða viðskiptavinir að veita Arctica Finance ákveðnar upplýsingar og slík flokkun er háð samþykki Arctica Finance.

Fagfjárfestar

Með fagfjárfestum er átt við viðskiptavini sem búa yfir reynslu, þekkingu og sérfræðikunnáttu til að taka sjálfir ákvarðanir um fjárfestingar og meta áhættuna sem þeim fylgir.

Eftirtaldir aðilar eru fagfjárfjárfestar:

  1. Lögaðilar sem hafa starfsleyfi eða sinna lögbundinni starfsemi á fjármálamarkaði, þ.m.t. fjármálafyrirtæki, vátryggingafélög, sjóðir um sameiginlega fjárfestingu og lífeyrissjóðir.
  2. Stór fyrirtæki sem uppfylla tiltekin skilyrði um efnahagsreikning, ársveltu og eigið fé.
  3. Ríkisstjórnir, sveitarstjórnir, seðlabankar og alþjóðastofnanir.
  4. Aðrir stofnanafjárfestar sem hafa það að aðalstarfi að fjárfesta í fjármálagerningum.
  5. Aðilar sem samþykktir hafa verið sem fagfjárfestar á grundvelli umsóknar fjárfestis. 

Arctica Finance mun því ekki leggja mat á þekkingu og reynslu viðskiptavina í flokki fagfjárfesta sem uppfylla skilyrði 1. – 4. tölul. hér að ofan þegar kemur að verðbréfaviðskiptum þeirra.

Fjárhagslegur styrkur þeirra viðskiptavina Arctica Finance sem flokkaðir hafa verið sem fagfjárfestar samkvæmt ósk með vísan til 5. tölul. að ofan, er metinn þegar þeim er veitt þjónusta með fjárfestingarráðgjöf eða eignastýringu.

Viðskiptavinir í flokki fagfjárfesta geta óskað eftir því að vera færðir í flokk almennra fjárfesta og njóta þannig meiri verndar. Óski aðili eftir að vera fluttur í flokk almennra fjárfesta þá glatar hann möguleika á að eiga viðskipti með flóknari fjármálagerninga. Þá geta fagfjárfestar jafnframt óskað eftir því að verða færðir í flokk viðurkenndra gagnaðila, en við það missa þeir hluta þeirrar verndar sem þeir njóta sem fagfjárfestar. Slík flokkun er háð mati og samþykki Arctica Finance.

Viðurkenndir gagnaðilar

Þeir viðskiptavinir sem falla í flokk viðurkenndra gagnaðila njóta minnstrar verndar samkvæmt lögum. Á því er byggt að þeir hafi mestan fjárhagslegan styrk, reynslu, þekkingu og sérfræðikunnáttu af öllum viðskiptavinum og þurfi því ekki jafn ríka vernd og almennir fjárfestar. Viðskiptavinir í hópi viðurkenndra gagnaðila geta óskað eftir því að flokkun þeirra verði breytt og þannig notið aukinnar verndar, ýmist sem fagfjárfestar eða almennir fjárfestar.

Samþykki viðskiptavina

Þeir sem falla í flokk fagfjárfesta og viðurkenndra gagnaðila þurfa að veita samþykki sitt fyrir flokkuninni.