Fyrirtækjaráðgjöf
Fyrirtækjaráðgjöf Arctica Finance veitir stórum sem smáum fyrirtækjum, stofnunum, samtökum, opinberum aðilum og einstaklingum margvíslega þjónustu tengda fjármálamörkuðum, bæði hérlendis og erlendis
Þjónusta fyrirtækjaráðgjafar felst einkum í því að veita aðstoð og ráðgjöf á eftirtöldum sviðum:
- Kaup og sala fyrirtækja
- Samrunar og yfirtökur og aðrar eignarhaldstengdar breytingar
- Nýskráningar og afskráningar fjármálagerninga
- Fjármögnun og útboð fjármálagerninga
- Fjárhagsleg endurskipulagning
- Stefnumótun eignarhalds og reksturs
Fyrirtækjaráðgjöf Arctica Finance er óháð og hlutlaus. Arctica Finance hefur ekki með höndum útlánastarfssemi og sérfræðingar fyrirtækjaráðgjafar eru því óháðir í greiningu, mati og vali á fjárfestingum og fjármögnunarkostum sem skilar sér í faglegri þjónustu viðskiptavinum til hagsbóta.
Kaup og sala fyrirtækja
Fyrirtækjaráðgjöf Arctica Finance veitir ráðgjöf við kaup og sölu fyrirtækja eða rekstrareininga. Þjónustan er gjarnan verkstjórn á slíku ferli, greining tækifæra, virðismat, greining virðisaukandi þátta, ráðgjöf um aðferðafræði, umsjón með samningaviðræðum, fjármögnun og lúkning viðskipta.
Þegar leitað er að fyrirtækjum eða rekstrareiningum til kaups, felst þjónusta Arctica Finance m.a. í að velja álitleg félög, kanna hvort viðkomandi félög séu til sölu og veita ráðgjöf við kaup og fjármögnun þeirra.
Arctica Finance veitir margvíslega ráðgjöf er kemur að sölu á fyrirtækjum eða rekstrareiningum. Starfað er í nánu samstarfi við seljanda við að þróa söluáætlun, finna rétta kaupandann og fá hagstæðustu kjörin. Skilningur er á því að hver seljandi hefur sínar hugmyndir og markmið við sölu og er veitt aðstoð og ráðgjöf við að ná þeim markmiðum.
Samrunar og yfirtökur og aðrar eignarhaldstengdar breytingar
Fyrirtækjaráðgjöf Arctica Finance veitir aðstoð og ráðgjöf við mótun samruna- og yfirtökuáætlana, verkstýrir slíku ferli og annast þá m.a. greiningu tækifæra, virðismat, greiningu virðisaukandi þátta, ráðgjöf varðandi aðferðafræði, umsjón með samningaviðræðum og lúkningu viðskipta. Fyrirtækjaráðgjöf hefur umsjón með framkvæmd yfirtökutilboða í hlutabréf skráðra fyrirtækja, innlausna og afskráninga hlutabréfa í kauphöll og veitir aðstoð við skuldsettar yfirtökur.
Nýskráningar og afskráningar fjármálagerninga
Fyrirtækjaráðgjöf Arctica Finance hefur umsjón með og veitir margvíslega ráðgjöf er kemur að skráningu og afskráningu verðbréfa í kauphöll, hvort heldur sem um er að ræða frumskráningu fyrirtækja, hlutafjárhækkun skráðra fyrirtækja, skráningu skuldabréfaflokka eða skráningu annarra verðbréfa. Fyrirtækjaráðgjöf hefur umsjón með skráningarferlinu, veitir fyrirtækjum og seljendum ráðgjöf við undirbúning skráningar, umsjón með gerð nauðsynlegra áreiðanleikakannana, umsjón með samskiptum við kauphöll og fjármálaeftirlit, umsjón með gerð lýsinga og fjárfestakynninga. Fyrirtækjaráðgjöf hefur jafnframt umsjón með rafrænni útgáfu verðbréfa í kerfum verðbréfamiðstöðva, s.s. Nasdaq CSD.
Arctica Finance er viðurkenndur ráðgjafi (e. Certified Adviser) og hefur heimild til þess að hafa milligöngu um skráningu á First North markaðnum. First North markaðurinn er sniðinn að þörfum vaxtarfyrirtækja sem eru að taka sín fyrstu skref á verðbréfamarkaði.
Fjármögnun og útboð fjármálagerninga
Fyrirtækjaráðgjöf Arctica Finance greinir hvers konar fjármögnunarkostir henta viðskiptavinum best. Mikil verðmæti geta falist í því að fyrirtæki sé rétt fjármagnað, út frá áhættu, tímalengd og skilmálum fjármögnunarinnar. Þjónusta í tengslum við fjármögnun felst m.a. í greiningu á núverandi fjármagnsskipan og tillögur að kjörfjármagnsskipan, gerð kynninga fyrir vænta lántakendur, greiningar á fjármögnunartilboðum frá lánveitendum, aðstoð við samningaviðræður, ráðgjöf við hugsanlega hlutafjáraukningu og í tengslum við fjármögnun skuldsettrar yfirtöku.
Öflun fjármagns getur farið fram með almennum og lokuðum útboðum verðbréfa. Þjónusta af þessu tagi felst meðal annars í:
- Að greina stöðu útgefanda
- Að veita ráðgjöf um fjármögnun
- Að eiga samskipti við fjárfesta
- Að annast gerð kynninga
- Að hafa umsjón með gerð lýsinga
- Að hafa umsjón með skráningu verðbréfa í kauphöll
- Að hafa umsjón með útgáfu verðbréfa í verðbréfamiðstöð (rafræn útgáfa)
- Að veita ráðgjöf um og hafa umsjón með lokaðri sölu/útboði verðbréfa
Fjárhagsleg endurskipulagning
Fyrirtækjaráðgjöf Arctica Finance veitir fyrirtækjum hagnýta ráðgjöf um fjárhagslega endurskipulagningu. Þjónustan getur falist í:
- Að veita ráðgjöf um fjárhagslega uppbyggingu
- Að koma með tillögur um hugsanlegar leiðir til endurfjármögnunar
- Að meta rekstraráætlanir ásamt því að meta áætlaða fjárfestingarþörf, með tilliti til möguleika á að greiða afborganir og vexti vaxtaberandi skulda, aðrar skuldbindingar og arð til hluthafa
- Að setja fram tillögur varðandi breytingar á fjármagnsskipan, t.d. varðandi breytta skilmála skulda, umbreytingu skulda í hlutafé eða útgáfu nýrra hluta. Markmið slíkra tillagna er jafnan að samræma endurgreiðsluferil lána væntu fjárstreymi frá rekstri
- Að útbúa kynningargögn fyrir lánveitendur og/eða fjárfesta
- Að annast viðræður við kröfuhafa sem og mögulega nýja lánveitendur og/eða fjárfesta
- Að aðstoða við gerð tilboða, endanlegra samninga og annarra löggerninga
Stefnumótun eignarhalds og reksturs
Hluthafar og lánveitendur íhuga stöðugt valkosti sína varðandi að hámarka verðmæti eigna sinna. Fyrirtækjaráðgjöf Arctica Finance býður upp á greiningu á tiltækum valkostum hvað varðar hámörkun verðmæta. Hagsmunaaðilar vilja til dæmis átta sig á hvenær sé hentugur tími til að losa eignarhald, hvort og hvenær fyrirtæki ættu að selja einstakar rekstrareiningar eða hvort þau ættu þvert á móti að stækka rekstrareiningar með yfirtökum.