Samruni Eldeyjar og Kynnisferða
Eldey og Kynnisferðir hafa undirritað samkomulag um sameiningu félaga í eignasafni Eldeyjar og Kynnisferða. Við það sameinast rekstur Kynnisferða, Arcanum Fjallaleiðsögumanna, Logakórs og Sportköfunarskóla Íslands, auk þess sem sameinað félag mun verða minnihlutaeigandi í Íslenskum Heilsulindum, Lava Center og Raufarhólshelli.
Með sameiningunni verður til eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins. Markmið sameiningarinnar er að gera samrunaaðila betur í stakk búna fyrir öfluga viðspyrnu greinarinnar þegar ferðalög hefjast af fullum þunga, með auknum krafti í sölu- og markaðsstarfi.
Samkomulagið er gert með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins og munu samrunaaðilar ekki tjá sig frekar um viðskiptin meðan á málsmeðferð stendur.
Fyrirtækjaráðgjöf Arctica Finance, fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka, BBA // FJELDCO og Deloitte veittu samrunaaðilum ráðgjöf við viðskiptin.