Fréttir

Mikill áhugi fjárfesta á þriðja víxlaútboði ÚR

25. febrúar 2021

Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. hélt lokað útboð á víxlum í tveimur flokkum miðvikudaginn 24. febrúar sl. Þetta er þriðja útboð félagsins á innan við hálfu ári, en það fyrsta á þessu ári. Útboðið heppnaðist mjög vel líkt og áður. Tilboð bárust að fjárhæð 3.500 millj. kr. frá 14 aðilum sem var umtalsvert meira en í síðasta útboði. ÚR ákvað að taka tilboðum fyrir 3.000 millj. kr. á 3,55% meðaltals vöxtum, en álag á Reibor lækkaði um 0,15% frá síðasta útboði. Arctica Finance hf. annaðist útboðið.

ÚR vinnur nú ásamt Arctica Finance að undirbúningi að útgáfu skuldabréfa til lengri tíma sem tilkynnt verður um á næstunni.

ÚR er öflugt sjávarútvegsfyrirtæki sem leggur áherslu á arðsemi og sjálfbæra nýtingu auðlinda. Með stefnumótandi fjárfestingum í aflaheimildum og traustum sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi og Grænlandi hefur félagið byggt upp eignir að verðmæti um 430 millj. evra. Eiginfjárhlutfall félagsins var 55,7% á miðju ári 2020. Rekstur félagsins er í dag þríþættur. Í fyrsta lagi er ÚR hefðbundið íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki, sérhæft í rekstri frystitogara. Í öðru lagi er félagið stærsti hluthafinn í Brim hf. sem er eina skráða sjávarútvegsfélagið á Íslandi og í þriðji lagi vinnur félagið að nýsköpun og vöruþróun í sjávarútvegi í gegnum dótturfélagið ÚR Innovation. ÚR er stofnaðili að samfélagsstefnu SFS en fyrirtæki innan vébanda SFS hafa markað sér stefnu í samfélagsábyrgð sem grundvallast á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.