Fréttir
Áttföld eftirspurn í hlutafjárútboði Fly Play hf.
Mikil eftirspurn var í hlutafjárútboði Play sem lauk klukkan 16.00 í dag, föstudaginn 25. júní 2021.
• Um 4600 áskriftir bárust fyrir um 33,8 milljarða króna.
• Í tilboðsbók A bárust áskriftir fyrir samtals 6,7 milljarða króna og var útboðsgengi 18 krónur á hlut.
• Í tilboðsbók B bárust áskriftir fyrir samtals 27,0 milljarða króna og var endanlegt útboðsgengi 20 krónur á hlut.
Arctica Finance hafði umsjón með hlutafjárútboðinu og Arion banki var söluaðili ásamt Arctica Finance.
Stjórn Play mun nú yfirfara þær áskriftir sem bárust í útboðinu og taka afstöðu til þeirra. Áætlað er að niðurstaða varðandi úthlutun liggi fyrir eigi síðar en í lok dags 28. júní 2021. Upplýsingar um úthlutun verða aðgengilegar í útboðskerfinu sem hægt verður að nálgast í gegnum vefsíðu Arctica Finance, www.arctica.is/play með því að nota sömu aðgangsauðkenni og notuð voru við skráningu áskrifta í útboðinu.
Gjalddagi og eindagi áskriftarloforða í útboðinu er áætlað að verði mánudaginn 5. júlí 2021 og er áætlað að afhenda áskrifendum hluti í Play eigi síðar en 9. júlí 2021 að undangenginni greiðslu.
Fyrsti viðskiptadagur með hlutabréf í PLAY á Nasdaq First North Iceland er
áætlaður 9. júlí
Áætlað er að viðskipti með hlutabréf í Play á Nasdaq First North Iceland hefjist 9. júlí 2021 en tilkynnt verður um fyrsta viðskiptadag með hlutabréfin með minnst eins viðskiptadags fyrirvara.
Birgir Jónsson, forstjóri Fly Play hf.:
„Síðustu dagar hafa verið magnaðir þar sem starfsfólk PLAY hefur rutt hverri hindruninni úr vegi á leið okkar í loftið en þeirri vinnu til grundvallar liggur auðvitað næstum tveggja ára undirbúningur. Hápunktinum er svo náð í þessari viku með glæsilegu jómfrúarflugi PLAY, hlutafjárútboði fyrir skráningu á Nasdaq First North Iceland og gríðarlegum áhuga erlendra sem innlendra fjölmiðla á félaginu vegna þessa. Við vissum að það var spenningur fyrir útboðinu, en við áttum ekki alveg von á svona rosalega góðum móttökum. Það var mjög ánægjulegt að sjá skráningar frá almenningi og ekki síður lífeyrissjóðum í eigu almennings. Í þokkabót fáum við svo afléttingu sóttvarnartakmarkana á miðnætti. Við getum því sennilega leyft okkur smá bjartsýni á framhaldið enda held ég að sjaldan hafi flugfélag verið eins vel undirbúið, eða jafn vel fjármagnað, til að nýta þau tækifæri sem gefast. Við sjáum ekki heldur annað en að áhugi fjárfesta endurspegli þessa bjartsýni sem við finnum fyrir og það sé einhugur hjá þjóðinni gagnvart því að byggja upp ferðaþjónustuna á Íslandi á ný, en við hjá PLAY ætlum okkur að leika risastórt hlutverk þar,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.
Nánari upplýsingar veita:
Fyrirtækjaráðgjöf Arctica Finance |
|
---|---|
Andri Ingason
| Lýður Þór Þorgeirsson |
Grétar Brynjólfsson
| Þórbergur Guðjónsson |