Fréttir

Alvotech skráð á Nasdaq New York

16. júní 2022

Í dag voru hlutabréf Alvotech Holdings skráð á Nasdaq hlutabréfamarkaðinn í New York. Á næstu dögum verður öðrum áfanga náð með samhliða skráningu félagsins á Nasdaq First North Growth markaðinn á Íslandi. Arctica Finance, Landsbankinn og Arion banki voru meðal ráðgjafa Alvotech við hlutafjáraukningu í aðdraganda skráningar.

Við upphaf viðskipta var Alvotech eina íslenska fyrirtækið sem skráð er á markað í Bandaríkjunum. Jafnframt er stefnt að því að bréf í Alvotech verði tekin til viðskipta á NASDAQ First North Growth markaðnum á Íslandi frá og með 23. júní 2022, en það yrði í fyrsta sinn sem bréf í íslensku fyrirtæki eru skráð samtímis til viðskipta í á hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum og á Íslandi.

Frá stofnun Alvotech fyrir áratug, hefur Alvotech byggt upp sérhæfða hátæknimiðstöð með allri aðstöðu á einni hendi til þróunar- og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja á stórum skala. Líftæknihliðstæðulyf hafa sömu klínísku virkni og líftæknilyf, sem hafa reynst vel til meðferðar við fjölda sjúkdóma og eru sá hluti lyfjamarkaðarins sem vex einna hraðast. Þannig vinnur Alvotech að því að auka aðgengi sjúklinga að ódýrari líftæknilyfjum með framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja sem geta dregið úr kostnaði við rekstur heilbrigðiskerfa um allan heim.