Fréttir

Hagar og Reginn undirrita samning um kaup á nýju hlutafé í Klasa

3. desember 2021

Hagar hf. og Reginn hf. undirrituðu í dag, 3. desember 2021, samning um áskrift að nýju hlutafé í fasteignaþróunarfélaginu Klasa ehf. en líkt og tilkynnt var þann 24. september sl. undirrituðu Hagar hf., Reginn hf., Klasi ehf. og KLS eignarhaldsfélag ehf. viljayfirlýsingu um frekari uppbyggingu og rekstur fasteignaþróunarfélagsins Klasa ehf.

Hagar og Reginn munu hvor um sig eignast þriðjung hlutafjár í Klasa. Hagar munu greiða fyrir eignarhlut sinn í Klasa með þróunareignum sem ekki eru hluti af kjarnastarfsemi félagsins og Reginn með eignasafni sem samanstendur af sölueignum og þróunareignum.

Klasi ehf. er þekkingarfyrirtæki á sviði fasteignaþróunar og hefur frá árinu 2004 sérhæft sig í þróun, stýringu og rekstri fasteignaverkefna, frá hugmynd að sölu, með hámörkun virði verkefna að leiðarljósi. Með aðkomu Haga og Regins mun grundvöllur starfsemi Klasa styrkjast enn frekar. Þróunarfélagið mun búa að eignasafni sem í felast veruleg tækifæri, umtalsverðum fjárhagslegum styrk auk þekkingar og reynslu til að taka þátt í stærri langtíma verkefnum á öllum stigum fasteignaþróunar.

Finnur Oddsson, forstjóri Haga:

Markmið okkar með samstarfi um fjárfestingu í Klasa er að koma þróunareignum Haga í skilgreindan farveg þar sem úrvinnsla þeirra fær óskipta athygli fagfólks með mikla reynslu á sviði fasteignaþróunar. Þannig tryggjum við hluthöfum Haga hámörkun á virði þróunareigna félagsins á meðan við getum einbeitt okkur betur að eigin kjarnastarfsemi, á dagvöru- og eldsneytismarkaði.  Allir aðilar samstarfsins, Klasi, Reginn og Hagar, leggja verkefninu til verðmætt veganesti í formi eigna, fjármagns, reynslu og þekkingar og við hlökkum til samstarfsins, sem við gerum ráð fyrir að skili eigendum góðum arði og íslensku samfélagi áhugaverðu umhverfi til uppbyggingar fjölbreyttrar atvinnustarfsemi og íbúðabyggðar.“

 Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins:

Reginn hefur í þó nokkurn tíma verið að horfa til þess að finna vettvang til að staðsetja þróunar- og uppbyggingarverkefni félagsins utan samstæðu þess og þá með aðkomu sérhæfðra aðila á því sviði sem og sterkra fjárfesta. Með viðskiptunum er þessi sýn að raungerast. Við bindum mikla von til þess að  samstarfsvettvangurinn verði kraftmikill og skapi nýja sýn í þróun,  uppbyggingu og rekstri fasteigna sem mæta  kröfum komandi kynslóða.  Þá erum við sérstaklega að horfa til breyttra krafna samfélagsins hvað varðar aukna sjálfbærni í uppbyggingu, rekstri og notkun bygginga.“

 Ingvi Jónasson, framkvæmdastjóri Klasa:

Það verður fengur fyrir Klasa að fá Haga og Reginn í eigendahópinn enda farsæl og sterk fyrirtæki hvort í sinni grein. Aðkoma nýrra hluthafa er einnig mikil traustsyfirlýsing til félagsins og staðfesting á þeim árangri sem félagið hefur náð á sviði fasteignaþróunar. Þess er vænst að þróunarverkefni Klasa njóti góðs af aukinni sérþekkingu sem fæst með nýjum hluthöfum og að lausnir félagsins í framtíðinni verði enn nær þörfum markaðar hvers tíma. Ýmsar tækniframfarir, aukin vitund, kröfur og tækifæri á sviði sjálfbærnimála á byggingarstigi, við notkun og rekstur fasteigna, sem og þróun í verslunar- og atvinnuháttum mynda nýjar áskoranir og tækifæri í fasteignaþróun.“

Viðskiptin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins en áreiðanleikakönnunum er nú lokið.

Arctica Finance er ráðgjafi Haga í viðskiptunum og Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans ráðgjafi Regins