Alfa Framtak fjárfestir í hótelum
Alfa Framtak hefur samið um kaup á 100% hlut í Hótel Umi á Suðurlandi, en endanleg viðskipti eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins. Fjárfestingin er gerð í gegnum sjóðinn Umbreytingu II slhf. og eignarhaldsfélagið AU 23 ehf. Alfa Framtak hefur nýlega einnig keypt 100% hlut í Hótel Höfn og 50% hlut í Hótel Hamri.
„Sjóðurinn er með fleiri hótelverkefni til skoðunar en Alfa Framtak telur langtímahorfur í ferðaþjónustunni góðar,“ segir í tilkynningu Alfa Framtaks.
„Ferðaþjónusta er undirstöðuatvinnugrein á Íslandi sem hefur einnig þá sérstöðu að skapa fjölbreytt bein og afleidd störf víðsvegar um Ísland. Að mati Alfa Framtaks eru langtímahorfur góðar og þarf atvinnugreinin á fjárfestingu að halda til þess að geta annast þá miklu spurn sem er eftir því að heimsækja landið okkar.“
Arctica Finance er ráðgjafi Alfa Framtaks í umræddum fjárfestingum.