Fréttir

Oculis fagnar tímamótum

24. mars 2023

Nasdaq Times SquareNasdaq Times Square

Þann 3. mars síðastliðinn var augnlyfjaþróunarfyrirtækið Oculis skráð í bandarísku kauphöllina Nasdaq undir auðkenninu OCS, en félagið safnaði samhliða um 15 milljörðum króna af nýju hlutafé. Í vikunni fagnaði félagið svo skráningunni með því að hringja bjöllunni á Nasdaq í New York við hátíðlega athöfn.

Evrópski fjárfestingarsjóðurinn LSP 7, um eins milljarða dala sjóður á sviði lífvísinda og sá stærsti á sínu sviði í Evrópu, leiddi hóp fjárfesta í hlutafjáraukningunni. Aðrir fjárfestar, sem eru fyrir í hluthafahópi Oculis, eru meðal annars Earlybird, Novartis Venture Fund, Pivotal bioVenture Partners, Tekla Capital Management og VI Partners.

Íslenskir fjárfestar, sem eru að koma nýir inn sem hluthafar eru meðal annars verðbréfasjóðir, lífeyrissjóðir, tryggingafélög og fjárfestingafélög. Aðrir íslenskir fjárfestar sem voru fyrir í hluthafahópi Oculis eru Brunnur vaxtarsjóður, sem er einkum í eigu lífeyrissjóða, og fjárfestingafélagið Silfurberg, en þessir fjárfestar leiddu fyrstu vísisfjármögnun (series A) Oculis árið 2016.

Arctica Finance var ráðgjafi í tengslum við fjárfestingu íslenskra aðila í hlutafjárútboðinu.