Fréttir

Lýsing gefur út skuldabréf

31. maí 2016

Lýsing hf. gaf nýlega út 900 milljónir króna að nafnvirði í skuldabréfaflokknum LYSING 15 1. Félagið hefur nú gefið út samtals 4 milljarða króna að nafnvirði í skuldabréfaflokknum frá því í nóvember 2015. Skuldabréfin eru jafngreiðslubréf til fimm ára og greiða mánaðarlega vexti sem taka mið af 1 mánaða REIBOR vöxtum að viðbættu 120 punkta álagi. Bréfin eru tryggð með veði í dreifðu lánasafni.

Markaðsviðskipti Arctica Finance höfðu umsjón með útgáfu og sölu skuldabréfanna.

Með þessari skuldabréfaútgáfu hefur Lýsing stigið mikilvæg skref í fjármögnun félagsins á innlendum skuldabréfamarkaði. Lýsing hefur starfsleyfi sem fjármálafyrirtæki. Fjárhagsstaða Lýsingar er góð, hagnaður félagsins í fyrra nam 607 milljónum króna og eigið fé félagsins um áramót var 10,6 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall Lýsingar reiknað skv. lögum um fjármálafyrirtæki (CAD) nam 45,2% í árslok 2015.