Fréttir

Arctica Finance höfðar ógildingarmál vegna ákvörðunar FME

5. október 2017

Stjórn Fjármálaeftirlitsins (FME) hefur tekið þá ákvörðun að Arctica Finance hf. (Arctica) skuli greiða stjórnvaldssekt, þar sem að FME telur að Arctica hafi brotið ákvæði laga um fjármálafyrirtæki og reglur FME um kaupaukakerfi.

Í þeim tilgangi að tryggja sjálfstæði og óhæði Arctica hefur engum öðrum en starfsmönnum félagsins staðið til boða að eignast hlut í félaginu. Félagið greiðir hófleg en sanngjörn laun, en þeir starfsmenn sem eiga hlut í félaginu njóta arðs af fjárfestingu sinni séu skilyrði fyrir útgreiðslu arðs uppfyllt.

FME hefur allt frá stofnun Arctica árið 2009 verið upplýst um eignarhald félagsins, arðgreiðslustefnu og útgreiddan arð án þess að athugasemdir hafi komið fram af hálfu FME. Arðgreiðslufyrirkomulag Arctica var sett á laggirnar áður en lög og reglur tengd kaupaukum voru sett og því ekki tilgangur fyrirkomulagsins að sniðganga þau ákvæði.

Arðgreiðslur til hluthafa samkvæmt fyrirfram ákveðinni arðgreiðslustefnu eru á engan hátt tengdar vinnuframlagi einstakra starfsmanna og geta að mati Arctica ekki talist kaupaukagreiðslur í skilningi laga um fjármálafyrirtæki, líkt og FME heldur fram í ákvörðun sinni.

Arctica er undrandi á ákvörðun FME og er henni eindregið ósammála og telur hana ekki byggja á skýrum lagaheimildum. Félagið sér sig knúið til að höfða dómsmál í þeim tilgangi að fá ákvörðun FME hnekkt.

Arctica mun ekki tjá sig frekar um þetta mál opinberlega þar til niðurstaða dómstóla liggur fyrir