Fréttir

Hlutafjárútboð PLAY hafið

9. apríl 2024

Almennt hlutafjárútboð Fly Play hf. hófst kl. 10.00, þriðjudaginn 9. apríl 2024 og því lýkur fimmtudaginn 11. apríl 2024 kl. 16.00.

Boðnir verða til kaups allt að 111.111.112 nýir hlutir útgefnir af PLAY á áskriftargenginu 4,5 krónur á hvern hlut, að jafnvirði allt að 500 milljónum króna. Til að stuðla að jafnræði hluthafa munu núverandi hluthafar, aðrir en þeir sem hafa nú þegar skráð sig fyrir nýjum hlutum, njóta forgangs til áskriftar ef til umframáskriftar kemur.

Upplýsingar og áskrift á vefnum

Tekið verður við tilboðum á útboðstímabilinu í gegnum áskriftarvef Arctica Finance, www.arctica.is/play-utbod. Hlekkur á áskriftarvefinn verður jafnframt á vefsíðu PLAY og Fossa fjárfestingarbanka.

Hlutafjárútboð PLAY

Fyrirhugað er að samandregnar niðurstöður útboðsins liggi fyrir og verði tilkynntar opinberlega þann 11. apríl 2024 og niðurstöður úthlutunar tilkynntar áskrifendum eigi síðar en 15. apríl 2024. Gjalddagi greiðsluseðla vegna samþykktra áskrifta er fyrirhugaður þriðjudaginn 23. apríl 2024.

Minnt er á að fjárfesting í hlutabréfum felur í sér áhættu og að áskrift í útboðinu er skuldbindandi. Áður en ákvörðun er tekin um fjárfestingu í útgefanda, ættu áskrifendur að lesa í þaula skilmála, skilyrði og aðrar opinberar upplýsingar sem um útboðið gilda. Nánari upplýsingar má finna á áskriftarvef Arctica Finance, www.arctica.is/play-utbod.

Útboðið er undanþegið gerð lýsingar, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 14/2020 um lýsingu verðbréfa sem boðin eru í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði.

Upplýsingar og tæknilega aðstoð má nálgast hjá fyrirtækjaráðgjöf Arctica Finance á tölvupóstfanginu PLAY@arctica.is eða í síma 513-3300 og fyrirtækjaráðgjöf Fossa fjárfestingarbanka á tölvupóstfanginu ftr@fossar.is eða í síma 522-4000, milli kl. 09:00 og 16:00 dagana 9. apríl til 11. apríl 2024.

Arctica Finance hf., hefur umsjón með útboðinu, útgáfu og töku hinna nýju hluta til viðskipta ásamt því að annast innheimtu og uppgjör allra viðskipta útgefandans í tengslum við útboðið. Arctica Finance og Fossar fjárfestingarbanki hf. eru sameiginlegir söluaðilar í útboðinu.