Hagar hf. hafa undirritað kaupsamning um kaup á öllu hlutafé í Lyfju hf.
Hagar hf. og Lindarhvoll ehf., f.h. Ríkissjóðs Íslands, hafa undirritað kaupsamning um kaup á öllum hlutum í Lyfju hf. Var kaupsamningur undirritaður í kjölfar viðræðna um tilboð Haga hf. í opnu söluferli. Ráðgjafi kaupanda var Arctica Finance.
Lyfja hf. samanstendur af móðurfélaginu Lyfju hf. ásamt dótturfélögunum Heilsu ehf. og Mengi ehf. Lyfja hf. rekur samtals 39 apótek, útibú og verslanir, auk lyfjaskömmtunar, um land allt undir merkjum Lyfju, Apóteksins og Heilsuhússins. Heildarvelta Lyfju hf. var 9 milljarðar kr. á árinu 2015.
Heildarverðmæti Lyfju hf. við gerð kaupsamnings er um 6,7 milljarðar króna. Verðmat Haga hf. byggir á ársreikningum félagsins undanfarin ár og rauntölum rekstrar fyrir fyrstu 9 mánuði ársins 2016.
Kaupsamningurinn er undirritaður með fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Gangi þeir fyrirvarar eftir má gera ráð fyrir að gengið verði frá viðskiptunum fyrir 1. júlí 2017.