Fréttir

PLAY hefur safnað áskriftarloforðum að andvirði 4 milljarða króna

1. mars 2024

Fly Play hf. („PLAY“ eða „félagið“) hefur tryggt sér áskriftarloforð að andvirði 1.400 milljónir króna til viðbótar við áskriftir að upphæð 2.600 milljónir króna sem áður var tilkynnt um. Skilyrði áskrifta um lágmarksáskrift fyrir a.m.k. 4.000 milljónir króna hefur því verið uppfyllt og eru áskriftirnar nú eingöngu háðar því skilyrði að hluthafar PLAY samþykki að veita stjórn félagsins heimild til að auka hlutafé félagsins á aðalfundi þann 21. mars næstkomandi. Áskriftargengi á hvern hlut er 4,5 kr.

Til viðbótar við ofangreinda hlutafjáraukningu mun stjórn félagsins leggja til við hluthafa að stjórninni verði veitt umboð til að efna til almenns útboðs að jafnvirði allt að 8 milljónum evra í íslenskum krónum á genginu 4,5 kr. á hlut. Til að tryggja jafnræði hluthafa munu núverandi hluthafar njóta forgangs ef til umframáskriftar kemur. Útboðið er undanþegið gerð lýsingar, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 14/2020, um lýsingu verðbréfa sem boðin eru í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði.

Ráðgert er að yfirfærsla PLAY yfir á Aðalmarkað Nasdaq Iceland geti átt sér stað fyrir lok annars ársfjórðungs og gengur sú vinna samkvæmt áætlun.

Birgir Jónsson, forstjóri PLAY:

„Það hefur verið virkilega ánægjulegt að verða vitni að þeim jákvæðu undirtektum sem fjárfestar hafa sýnt kynningu okkar á hlutafjáraukningunni. Með þeim skuldbindingum sem við höfum nú móttekið ásamt skuldbindingum okkar stærstu hluthafa, sem áður hafði verið tilkynnt um, hefur Play nú tryggt sér 4 milljarða eiginfjár innspýtingu. Sú tala kann að stækka í kjölfar útboðs sem áætlað er í kjölfar aðalfundar félagsins í mars.

Hlutafjáraukningin styrkir fjárhagsstöðu félagsins verulega og gerir því kleift að grípa spennandi tækifæri til vaxtar og/eða mæta óvæntum áföllum. Þetta er mikilvægur áfangi fyrir okkar góða félag og starfsfólk félagsins. Það er magnað að upplifa hvernig fagmennskan hjá starfsfólki félagsins heldur áfram að þróast. Metnaðurinn hjá hópnum er einstakur og það eru lífsgæði að starfa með jafn öflugu fólki og hér er að finna hjá PLAY“

Arctica Finance hf. hefur umsjón með útboðinu, útgáfu og töku hinna nýju hlutabréfa til viðskipta ásamt því að annast innheimtu og uppgjör viðskiptanna í tengslum við útboðið. Arctica Finance hf. og Fossar fjárfestingarbanki hf. eru sameiginlegir söluaðilar í útboðinu og hefur Greenhill (Mizuho) veitt félaginu ráðgjöf.

Arctica Finance hf. hefur umsjón með töku hlutabréfa PLAY til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland.