Upplýsingar

Meðferð kvartana og réttarúrræði

Arctica Finance leggur metnað í að veita viðskiptavinum sem bestu þjónustu á sviði verðbréfaviðskipta. Hluti af þeirri þjónustu er að veita upplýsingar um það hvert viðskiptavinir eigi að snúa sér ef þeir telja sig hafa ástæðu til að kvarta yfir þjónustu félagsins.

Komi upp ágreiningur milli viðskiptavinar og Arctica Finance getur viðskiptavinur sent Arctica Finance kvörtun. Með kvartanir er farið samkvæmt almennum starfsreglum Arctica Finance um meðferð kvartana. Kvörtun er hægt að bera fram með ýmsum hætti, s.s. með tölvupósti (kvortun hja arctica.is), bréfleiðis, með símtali eða á fundi.

Stefna Arctica Finance er að tryggja að kvartanir og önnur sambærileg erindi fái skjóta, skilvirka og sanngjarna afgreiðslu. Í því felst m.a. að:

  • Móttaka kvörtunar sé staðfest og upplýsingar veittar um meðhöndlun hennar.
  • Kvörtun sé svarað skriflega, eða með sambærilegum hætti og hún barst, svo fljótt sem kostur er eða eigi síðar en innan fjögurra vikna. Reynist ekki unnt að svara kvörtun innan framangreindra tímamarka skal sá er kom kvörtun á framfæri upplýstur um töfina, ástæður hennar og hvenær svars sé að vænta.
  • Aflað sé allra nauðsynlegra upplýsinga og gagna um kvörtun og þau metin á hlutlægan hátt. Sé kvörtun viðskiptavinar óskýr þannig að ekki er ljóst hvernig skuli bregðast við henni, skal Arctica Finance óska eftir nánari upplýsingum frá þeim sem kvartar.
  • Upplýsingar séu veittar viðskiptavini á skýran og skilmerkilegan máta.
  • Afstaða Arctica Finance sé rökstudd skriflega ef kvörtun viðskiptavinar er ekki að fullu tekin til greina og upplýsingar veittar um réttarúrræði.

Í almennum starfsreglum Arctica Finance segir um meðferð kvartana viðskiptavina:

Starfsmenn Arctica skulu bjóðast til að ræða við viðskiptavin sem kvartar, en það skal þó ekki vera skilyrði fyrir móttöku kvörtunar af hálfu viðskiptavinar. Viðskiptavini skal gerð grein fyrir að hann geti ávallt beint kvörtun sinni strax til framkvæmdastjóra félagsins eða regluvarðar.

Ef viðskiptavinur er ekki ánægður með úrlausn Arctica skal viðskiptavini bent á að hann getur beint kvörtun til úrskurðaraðila samkvæmt lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála eða leitað til dómstóla. Kvörtun má draga til baka á hvaða stigi sem er. Mál fellur niður ef Arctica og viðskiptavinur ná samkomulagi um lausn þess. Hægt er að fá frekari upplýsingar um úrskurðaraðila og málsmeðferðarreglur á heimasíðu Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.

... Tryggja skal rétta meðhöndlun persónulegra upplýsinga og hættu á hagsmunaárekstrum með aðgangsstýringum.

Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki

Viðskiptavinur getur skotið ágreiningi til Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki:

Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki

Guðrúnartún 1
105 Reykjavík
Sími: 578 6500
Netfang:  fjarmal@nefndir.is

Fylla þarf út sérstakt málskotseyðublað og skila eða senda í pósti til skrifstofu Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands til að óska eftir úrskurði nefndarinnar. Eyðublaðið má nálgast á skrifstofu nefndarinnar eða vefsíðu hennar . Nánari upplýsingar um nefndina, málskotsgjald, hverjir geta leitað til nefndarinnar o.fl. er að finna á vef nefndarinnar og vef Fjármálaeftirlitsins.

Upplýsinga- og leiðbeiningarþjónusta Fjármálaeftirlitsins

Fjármálaeftirlitið leiðbeinir viðskiptavinum fjármálafyrirtækja í samræmi við leiðbeiningarskyldu stjórnvalda. Sjá nánari upplýsingar á vef Fjármálaeftirlitsins.

Neytendastofa

Neytendastofa er stjórnvald á sviði neytendamála sem annast framkvæmd á ýmsum lögum á sviði neytendaverndar. Á heimasíðu Neytendastofu er m.a. unnt að nálgast upplýsingar um það í hvaða tilvikum og með hvaða hætti neytendur geta leitað til stofnunarinnar, telji þeir að réttur sé á þeim brotinn. Sjá nánar á vef Neytendastofu.

Dómstólar

Aðilar geta lagt ágreining fyrir dómstóla.

Tryggingasjóður

Vakin er athygli á Tryggingarsjóði vegna fjármálafyrirtækja sem starfar skv. lögum nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Markmið laganna er að veita innstæðueigendum og viðskiptavinum fjármálafyrirtækja lágmarksvernd vegna greiðsluerfiðleika fjármálafyrirtækja í samræmi við ákvæði laganna. Sjá nánar lögin og frekari upplýsingar um sjóðinn, útgreiðslur o.fl. á vef Tryggingarsjóðs.