Fréttir

IS Haf fjárfestingar fjárfestir í uppbyggingu á 20.000 tonna laxeldi í Þorlákshöfn

21. september 2023

IS Haf fjárfestingar slhf. í samstarf við Thor Landeldi ehf.

IS Haf fjárfestingar hafa undirritað samning um fjárfestingu í Thor Landeldi ehf., en félagið áformar uppbyggingu á 20.000 tonna laxeldi í Þorlákshöfn. Um er að ræða þátttöku sjóðsins í hlutafjáraukningu, sem færir sjóðum 53% hlut í félaginu. Auk IS Hafs fjárfestinga munu norsku fjárfestarnir Frank Yri aðstoðarframkvæmdastjóri Seaborn og Alex Vassbotten, sem m.a. er stjórnarformaður Seaborn, fjárfesta í félaginu en Seaborn er norskt sölufyrirtæki á laxi. Báðir hafa umtalsverða reynslu úr laxeldi og fjárfestingastarfsemi tengdri laxeldi.

Félagið hefur tryggt sér 20,3 hektara lóð við Laxabraut 35-41 vestan við Þorlákshöfn. Staðsetningin er afar heppileg fyrir eldi þar sem svæðið er auðugt af fersku vatni og jarðsjó sem þarf til framleiðslu á laxi á landi. Nýtt hlutafé í félaginu verður nýtt til að fjármagna fyrsta áfanga eldisins sem er uppbygging á seiðaeldisstöð. Verkefnið er í umhverfismatsferli og gangi áætlanir eftir er gert ráð fyrir að tekið verði á móti fyrstu hrognum í seiðaeldisstöðina haustið 2024.

Forsvarsmenn verkefnisins eru þeir Jónatan Þórðarson, Þórður Þórðarson og Halldór Ragnar Gíslason, sem allir hafa mikla reynslu á ýmsum sviðum fiskeldis. Jónatan er fiskeldisfræðingur með yfir 20 ára reynslu af rekstri og uppbyggingu fiskeldisstöðva og var yfirmaður eldismála hjá Ice Fish Farm 2012-2022. Þórður starfaði áður m.a. sem lögmaður og framkvæmdastjóri hjá Fiskeldi Austfjarða hf. 2012-2023 en þeir Jónatan voru meðal stofnenda Fiskeldis Austfjarða hf. Halldór er sjávarútvegsfræðingur með M.Sc. gráðu í fiskeldi frá Skotlandi og starfaði síðast í sjávarútvegsteymi á fyrirtækjasviði Arion banka.

Ráðgjafi seljenda var Arctica Finance og var Deloitte ráðgjafi IS Haf fjárfestinga.

IS Haf fjárfestingar slhf. er sjóður sem stofnaður var í febrúar 2023 og er í rekstri Íslandssjóða hf. Sjóðurinn sem er 10 milljarðar að stærð fjárfestir í haftengdri starfsemi á breiðum grunni,  allt frá útgerðum og fiskeldi yfir í hátækni, innviðauppbyggingu, markaðssetningu og sjávarlíftækni. Stærstu fjárfestarnir í sjóðnum eru íslenskir lífeyrissjóðir ásamt Brim hf. og Útgerðarfélagi Reykjavíkur hf. sem er kjölfestufjárfestir í sjóðnum. Í krafti meðfjárfestinga hluthafa og annarra fjárfesta er áætlað að fjárfestingageta IS Haf verði á bilinu 30 til 50 milljarðar. Ráðgjafasamningur er í gildi á milli Íslandssjóða og Útgerðarfélags Reykjavíkur sem í sameiningu vinna að öflun og greiningu fjárfestingatækifæra.

Kristrún Auður Viðarsdóttir framkvæmdastjóri IS Haf fjárfestinga slhf. 

„Hröð uppbygging laxeldis á Íslandi krefst öflugrar aðkomu fjárfesta við hlið aðila með reynslu úr greininni. Mikil þörf er á að styrkja innviði laxeldis til að halda í við vöxtinn og er framleiðsla á seiðum grunnforsenda fyrir farsælum vexti bæði sjókvíaeldis og landeldis. Með fjárfestingu IS Haf í Thor Landeldi ehf. er hafin vegferð sem mun þjóna lykilhlutverki í uppbyggingu nýlegrar atvinnugreinar í miklum vexti.“

Runólfur Viðar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Reykjavíkur hf.
 

„Með samstarfi ÍS Haf með reynslumestu eldismönnum Íslands erum við að skapa umgjörð til þess að hámarka líkur á arðbærri fjárfestingu í þessum nýja atvinnuvegi okkar Íslendinga.“

 Jónatan Þórðarson, eldisstjóri Thor Landeldi ehf.

„Fyrirsvarsmenn Thor Landeldi ehf. fagna aðkomu IS Haf að uppbyggingu félagsins, en með henni er brautin rudd fyrir metnaðarfull áform félagsins um uppbyggingu á stórskala landeldi á laxi. Landeldi á laxfiskum er einn náttúruvænasti kosturinn til framleiðslu hágæðapróteins sem völ er á í dag.  Mikil reynsla er nú þegar komin hérlendis á landeldi og er því um að ræða mjög áhugaverðan fjárfestingarkost.“