Fréttir

Carbon Recycling International lýkur 30 milljón dollara fjármögnun

21. júní 2023

Carbon Recycling International (CRI) hefur nú lokið 30 milljón bandaríkjadala fjárfestingarlotu, en áform um hana voru tilkynnt á aðalfundi félagsins á síðasta ári. Equinor Ventures leiðir hóp nýrra fjárfesta sem bætast nú í hlutahafahóp CRI en aðrir nýir fjárfestar eru Gildi lífeyrissjóður, Sjóvá og Lífeyrissjóður Vestmannaeyja.

Equinor Ventures, fjárfestingaarmur Equinor, sérhæfir sig í að fjárfesta í og styðja við metnaðarfull, vaxandi nýsköpunarfyrirtæki á orkumarkaði. Equinor er alþjóðlegt orkufyrirtæki með höfuðstöðvar í Noregi.

CRI hefur þróað leiðandi tæknilausn á heimsvísu sem gerir viðskiptavinum þeirra kleift að framleiða metanól á umhverfisvænan hátt úr koltvísýringi og vetni, sem síðan er hægt að nýta sem grænan orkugjafa eða í efnavörur. Tæknilausnin var þróuð og prófuð á Íslandi og var í kjölfarið innleidd í stærstu verksmiðju sinnar tegundar í heiminum. Á meðal annarra, stórra hluthafa í fyrirtækinu eru Geely, Methanex og Eyrir Invest.

Arctica Finance var ráðgjafi CRI í tengslum við fjárfestingu íslenskra aðila í hlutafjárútboðinu.