Fréttir

Kynnisferðir festa kaup á Actice ehf.

3. nóvember 2022

Undirritað hefur verið samkomulag um kaup Kynnisferða á ferðaþjónustufyrirtækinu Actice ehf. sem starfar undir vörumerkinu Activity Iceland. Unnið er að tilkynningu til Samkeppniseftirlitsins og stendur áreiðanleikakönnun yfir.

Actice sérhæfir sig í klæðskerasaumuðum ferðalausnum í náttúru Íslands. Félagið gerir út 13 breytta jeppa auk þess að bjóða upp á ýmsa aðra þjónustu fyrir ferðamenn.

Kynnisferðir sem starfa undir vörumerkinu ICELANDIA eru eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins. Í samstæðu félagsins eru Reykjavik Excursions, Icelandic Mountain Guides, Iceland Rovers, Dive.is, Flybus, dráttarbílafyrirtækið Garðaklettur, Almenningsvagnar Kynnisferða auk þess sem Kynnisferðir eru umboðsaðili bílaleigunnar Enterprise Rent-a-Car á Íslandi.

"Kaup okkar á Actice auka enn fjölbreytni í okkar rekstri og gefa okkur tækifæri til að veita viðskiptavinum okkar enn breiðara vöruúrvali og einstaka upplifun í íslenskri náttúru. Við hlökkum til að fá Hörpu Groiss og Harald G Bender ásamt þeirra frábæra starfsfólki, til liðs við okkar sterka og fjölbreytta hóp starfsmanna“ segir Björn Ragnarsson framkvæmdastjóri Kynnisferða.

"Síðustu 7 árin hafa verið spennandi og viðburðarrík í okkar rekstri og erum við þakklát okkar starfsfólki og viðskiptavinum. Nú tekur við nýr kafli hjá okkur með Kynnisferðum og í sameiningu höldum við áfram því góða starfi sem við höfum af einlægni sinnt frá upphafi. Activity Iceland verður núna nýjasti hlekkurinn í frábærri heild og eru spennandi tímar framundan og mörg tækifæri sem bíða okkar undir ICELANDIA regnhlífinni.“ segja þau Haraldur, Harpa og Guðjón eigendur Actice.

Fyrirtækjaráðgjöf Arctica Finance og BBA//Fjeldco voru ráðgjafar Kynnisferða og AOS ráðgjöf ásamt KRST Lögmönnum ráðgjafar seljenda.