Eignastýring

Útgefið efni

Greinar og ýmis fróðleikur eftir starfsmenn Eignastýringar Arctica Finance. Meðal efnis er umfjöllun um efnahagsmál, fjármál, umhverfismál og fleira.

  • Valdimar Ármann

Vestfirðir í vörn eða sókn?

15. júní 2022

Valdimar Ármann forstöðumaður eignastýringar Arctica Finance tók þátt í ársfundi Vestfjarðastofu þriðjudaginn 14. júní á Ísafirði. Til umræðu voru framtíðarhorfur atvinnulífs og samfélaga á Vestfjörðum. Ásamt Runólfi Ágústssyni framkvæmdastjóra Ráðgjafar og verkefnastjórnunar fjallaði Valdimar um áform um stofnun á sérhæfðum sjóði fyrir fagfjárfesta sem myndi fjárfesta í uppbyggingu og nýsköpun í ferðaþjónustu á Vestfjörðum.

Fyrirséð er að vinsældir Vestfjarða eru að aukast umtalsvert með miklum áhuga hjá bæði íslenskum og erlendum ferðaskipuleggjendum. Þá hefur áhugi erlendra miðla aukist mikið, sérstaklega með viðurkenningu Lonely Planet. Mikil umbylting verður í samgöngumátum um Vestfirði þegar nýr vegur um Gufudalssveit og Dynjandisheiði verður tilbúinn og leggur grunninn að hringvegi um Vestfirðina ásamt því að leiðin frá Reykjavík til Ísafjarðar verður álíka löng og Reykjavík til Akureyrar.

Samhliða mikilli uppbyggingu í fiskeldi á Vestfjörðum eru mikil tækifæri í ferðaþjónustu og því sem henni tengist. Íbúum Vestfjarða hefur loks tekið að fjölga aftur eftir fækkun undanfarinn áratug og það virðist sem Vestfirðirnir séu að leggja upp í sókn.