Verðbólga er alltaf og ætíð peningalegt fyrirbæri
Valdimar Ármann, forstöðumaður Eignastýringar Arctica Finance
Greinin birtist í Markaðnum Fréttablaðinu þann 22. desember 2021
Seðlabankar margra landa áttu fundi í síðustu viku m.a. í Englandi, Evrópu og Bandaríkjunum, og biðu fjármálamarkaðir með eftirvæntingu eftir því hvað þeir segðu um stefnu sína í stýrivöxtum og skuldabréfakaupum þ.e. magnbundna íhlutun. Sumir bjuggust við hörðum tóni og ákveðnum yfirlýsingum í baráttunni gegn verðbólgunni.
Góður en viðkvæmur efnahagsbati
Efnahagsbatinn hefur verið nokkuð góður víðsvegar með auknum hagvexti og minnkandi atvinnuleysi en mögulega hefur það verið keyrt áfram af of mikilli peningaprentun og of lausu taumhaldi peningastefnunnar. Spurning hvort að fjármálaleg tilraunastarfsemi erlendra seðlabanka muni að lokum bíta þá í rassinn, enda er taumhald peningastefnunnar í mörgum ríkjum mun lausara en stýrivextir gefa til kynna vegna skuldabréfakaupa þeirra og peningaprentunar. Seðlabanki Bandaríkjanna lýsti því yfir að verðbólgan væri stór ógn við bandarískt hagkerfi, en ekki er hægt að segja að hann grípi til mikilla aðgerða. Hann er þó að draga úr magnbundinni íhlutun og boðar þrjár vaxtahækkanir á næsta ári sem var nokkuð í samræmi við væntingar markaðarins. Hins vegar kom óvænt vaxtahækkun hjá Englandsbanka, heil 0,15% sem hljómar nú meira eins og einhvers konar skilaboð um stefnubreytingu heldur en raunveruleg barátta við verðbólgu enda dropi í hafið þegar verðbólgan er um 5%. Evrópski seðlabankinn ætlar síðan að draga úr sínum skuldabréfakaupum, en samt ekki, og telur að verðbólgan komi niður án vaxtahækkana, sem er einhver ný hagfræði.
Enn eru raunvextir mjög neikvæðir
Þrátt fyrir vaxtahækkanir hér á landi og nokkrum öðrum löndum eru raunvextir enn verulega neikvæðir og ættu að vera mun hærri ef miðað er við t.d. Taylor jöfnuna. En hættan sem seðlabankar standa frammi fyrir er að harðara taumhald peningastefnunnar muni hægja um of á efnahagsbatanum og jafnvel leiða hagkerfin í stöðnunarverðbólgu (e. stagflation), þ.e. lágan hagvöxt samhliða hárri verðbólgu. Því virðist vera einhugur um að leyfa verðbólgunni að krauma aðeins lengur gegn því að hagkerfið og fjármálamarkaðir standi sig vel.
Áhættan við peningaprentun er verðbólga
Eftir eina stærstu lausafjárinnspýtingu í sögunni inn á markaði er verðbólgan farin af stað og veldur áhyggjum, sérstaklega vegna þess að ekki sér enn fyrir endann á samkomutakmörkunum og ráðstafana vegna kórónaveirunnar sem krefst áframhaldandi stuðnings hins opinbera við ákveðnar atvinnugreinar, og raskar jafnvægi á vinnumarkaði og aðfangakeðjum. Stjórnvöld voru tilbúin að taka áhættuna við gegndarlausan fjáraustur og skuldaaukningu samhliða peningaprentun og súpa þau nú seyðið af því í formi hárrar verðbólgu. Hins vegar er þessi mikla verðbólga ein leið skuldsettra ríkissjóða til að „greiða af“ lánum sínum og í rauninni ekkert annað en ákveðin skattlagning og tilfærsla á fé, sem kemur illa við almennt launafólk.