Eignastýring

Útgefið efni

Greinar og ýmis fróðleikur eftir starfsmenn Eignastýringar Arctica Finance. Meðal efnis er umfjöllun um efnahagsmál, fjármál, umhverfismál og fleira.

  • Valdimar Ármann

Vel heppnuð vaxtahækkun Seðlabanka Íslands

24. maí 2022

Valdimar Ármann, forstöðumaður Eignastýringar Arctica Finance. Greinin birtist í Markaðnum Fréttablaðinu þann 18. maí 2022

Seðlabanki Íslands hefur nú hækkað vexti myndarlega frá því að stýrivextir náðu sögulegu lágmarki í 0,75% en eftir síðustu vaxtahækkun upp á 1%, standa stýrivextir nú í 3,75%. Jafnframt hefur bankinn gefið sterklega til kynna frekari vaxtahækkanir næstu mánuði, enda er verðbólgan mun hærri og þrálátari en væntingar stóðu til. Með svona hárri verðbólgu og hagkerfi í jafnvægi er varðar framleiðsluþætti, er ljóst að stýrivextir þurfa að hækka þó nokkuð yfir jafnvægisvexti til að ná verðbólgunni niður í markmið. Vaxtabreytingar Seðlabankans eru ekki pólitískir leikir eða óvæntar aðgerðir heldur viðbúnar aðgerðir sem byggja á þróun hagtalna, sér í lagi tölum um verðbólgu og framleiðsluspennu eða slaka sem byggja m.a. á atvinnuleysi.

Það má ekki gleymast í umræðunni að þegar verðbólgan hjaðnar, mun Seðlabankinn lækka vexti aftur. Í hnotskurn þarf Ísland að ná verðbólgunni niður í markmið og þá er hægt að lækka vexti aftur í jafnvægisvexti sem Seðlabankinn metur nú ríflega 1% raunvexti, skv ummælum á síðasta vaxtaákvörðunarfundi, sem gerir þá nafnstýrivexti í jafnvægi um 3,75%. Og þetta er stóra vaxtalækkunin sem Ísland er að ganga í gegnum þ.e. til samanburðar hafa jafnvægisraunvextir verið hér sögulega séð kringum 4%!

Síðasta vaxtahækkun bankans og harður tónn var vel heppnuð aðgerð þar sem framvirkar verðbólguvæntingar á skuldabréfamarkaði lækkuðu um hálft prósent um leið og væntingar markaðarins fóru að myndast um 1% vaxtahækkun, eins og sjá má á myndinni. Hér erum við að horfa á vænta verðbólgu yfir fimm ára tímabil sem byrjar eftir fimm ár, en markaðurinn mat framtíðarverðbólgu yfir 4% sem þýðir í rauninni brostinn trúverðugleiki á því að Seðlabankinn gæti nokkurn tímann náð sínu 2,5% verðbólgumarkmiði. En nú eru framvirku verðbólguvæntingarnar komnar í ríflega 3,5% sem er jákvæð þróun og gefur til kynna að við gætum stefnt hér aftur í jafnvægi, og trúverðugleiki á stefnu bankans sé að myndast aftur.

En til að ná markmiðinu þurfa allir að leggjast saman á árarnar og róa í sömu átt, núna er meðal annars tíminn fyrir ríkissjóð að rifa seglin, draga úr sínum umsvifum og byrja aftur þá vegferð að greiða niður skuldir; safna í sarpinn fyrir næsta áfall. Ljóst er nú að mistök voru gerð í fjármálalegri tilraunastarfsemi og peningaprentun erlendra Seðlabanka og súpa þeir nú seyðið af því, en erfitt er að reynast fyrir markaðina að aðlagast nýjum veruleika. Ísland stendur hins vegar mun betur en við þurfum að varðveita góðan árangur.

Framvirkar 5 ára verðbólguvæntingar skuldabréfamarkaðar


Picture1_1653388491238