Veiruleikafirrtur veruleiki
Við búum í dag við veiruleikafirrtan veruleika og ófyrirséðar efnahagslegar afleiðingar. Með hvarfi ferðamanna og samkomutakmörkunum standa mörg fyrirtæki uppi tekjulaus og horfa fram á gjaldþrot á meðan önnur blómstra samhliða umbyltingu í neysluhegðun heimila með tilfærslu á neyslu erlendis inn á innanlandsmarkað og úr hefðbundinni afþreyingu s.s. líkamsrækt og bíóferðum í aðra vöruflokka.
Breytingin á hagkerfinu á svo skömmum tíma er ótrúleg og hefur haft sín áhrif á verðlagningu hlutabréfa og skuldabréfa samhliða óvissu um framhaldið. Þegar bóluefni hefur farið í dreifingu og í framhaldinu slakað á takmörkunum á ferðalögum og samkomum mun neysla aftur breytast, en hversu langan tíma það tekur og hvert verður hið nýja „norm“ er einhverri óvissu háð. Tilkynningar um aukna útgáfu skuldabréfa frá ríki og opinberum aðilum eru ekki einsdæmi fyrir Ísland og mörg fyrirtæki þurfa að sækja sér fjármagn. Á móti eru Seðlabankar víðs vegar að styðja vel við markaðinn með því að kaupa skuldabréf í miklu magni og prenta þannig í raun peninga. Prentun peninga í einföldu máli fer þannig fram að Seðlabankinn kaupir ríkisskuldabréf þannig að ríkissjóður hafi meira aðgengi að fjármagni sem hann getur svo deilt út í hagkerfið. Það veldur síðan auknu peningamagni í umferð sem að öðru jöfnu lækkar vexti, hækkar eignaverð og verður til þess að meira magn peninga verður til staðar í hagkerfinu til að kaupa eignir, vörur og þjónustu.
Varanlega lægri vextir
Á Íslandi voru vextir í lækkunarfasa fyrir faraldurinn þar sem hagkerfið var byrjað að kólna og ákveðin hættumerki tekin að myndast, en þessi mikli samdráttur í ár hefur ýtt undir vaxtalækkunarferlið og hraðað því umtalsvert. Það er þó vert að minnast þess að Ísland hefur verið að færast undanfarin ár í nýtt jafnvægisvaxtastig. Er það tilkomið vegna aukins sparnaðar þjóðarinnar, hækkandi lífaldurs og jákvæðrar erlendrar eignastöðu og myndarlegs gjaldeyrisvaraforða. Í hnotskurn er hagkerfið núna í jafnvægi við lægra vaxtastig og sterkara gengi krónunnar en verið hefur.
Vaxtalækkun ein og sér þýðir töluverða endurskoðun á fjárfestingarstefnu fjárfesta á Íslandi enda gefa nú áhættulaus ríkisskuldabréf og innlánsreikningar mun minna af sér en áður. Áhrifin á aðra eignaflokka eru líka umtalsverð og ætti virði þeirra að hækka að öðru jöfnu. Þá gætu arðgreiðslufélög verið litin öðru auga en áður þar sem arðgreiðsluhlutfall fer að skipta meira máli í samanburði við vaxtagreiðslur af öruggum skuldabréfum. Fjárfestar sem vilja nota sparnað til framfærslu geta þannig farið að líta til heldur áhættusamari fjárfestinga en áður til að halda uppi heildarávöxtun.
Ár peningaprentunar
Áfram verður horft til þess hvernig og hversu mikið Seðlabankar og ríkissjóðir munu tjalda til stuðnings fyrir fyrirtæki og heimili til að halda hagkerfum heimsins gangandi. Verðbólgan virðist grafin og gleymd og eilífðarvélin er nánast komin í fulla nýtingu; fjárhagsleg tilraunastarfsemi Seðlabanka vindur upp á sig og áfram verður kallað eftir stuðningi ríkissjóða. Seðlabanki Íslands tilkynnti í lok ársins að árið framundan yrði ár peningaprentunar á Íslandi og er stefnt að því að stýra hagkerfinu með ýmis konar aðferðum. Með þau orð að leiðarljósi samhliða veiruleikafirringunni þurfa fjárfestar að horfa öðrum augum en áður á framhaldið.
Greinin birtist í Markaðnum Fréttablaðinu þann 13. janúar 2021
- Næsta færsla
- Fyrri færsla