Eignastýring

Útgefið efni

Greinar og ýmis fróðleikur eftir starfsmenn Eignastýringar Arctica Finance. Meðal efnis er umfjöllun um efnahagsmál, fjármál, umhverfismál og fleira.

  • Valdimar Ármann

Vandaður vegur ábyrgra fjárfestinga

28. apríl 2021

Allir, þ.m.t. fyrirtæki og opinberir aðilar, leita nú leiða að því að uppfylla Heimsmarkmiðin og markmið í loftslagsmálum. Hlutverk fjárfesta með ábyrgum fjárfestingum þar sem tekið er aukið tillit til umhverfisþátta, félagslegra þátta og stjórnarhátta (skammstafað UFS eða á ensku ESG) er að fá síaukna athygli, og fjárfestar setja sér í auknum mæli stefnur um ábyrgar fjárfestingar og meta hvernig hægt sé að flétta þeim saman við núverandi fjárfestingarstefnur, heimildir og markmið. En eitt er að setja stefnuna, og annað er svo að framfylgja henni.

Stefnum fylgir ábyrgð

Það hefur því vakið athygli að tveir stór stofnanafjárfestar sitt hvorum megin við Atlantshafið hafa nýverið birt uppfærðar stefnur eða markmið um ábyrgar fjárfestingar og þeim eru að fylgja áþreifanlegar breytingar á eignasöfnum þeirra:

 

  • Á síðasta ári ákvað eftirlaunasjóður New York fylkis (New York state pension fund) að endurskoða stefnu sína í umhverfismálum.  Á síðasta ári voru seldar eignir sem tengdust kolaiðnaðinuum og nýverið tilkynnti sjóðurinn að hann hefði takmarkað fjárfestingar sínar í fyrirtækjum sem vinna olíu úr sandi, (e. oil sand companies) og muni að lokum selja allar eignir sínar í þeim félögum. Á næstunni verða endurskoðaðar fjárfestingar í fyrirtækjum sem vinna olíu úr bergi með vökvabroti (e. shale oil) og gas fyrirtækjum. Sjóðurinn mun hvorki kaupa hlutafé, skuldabréf eða lán eða eiga eignir óbeint gegnum sjóði eða eignastýringar í þeim félögum sem ákveðið er að fjárfesta ekki í.  Á næstu 5 árum er stefnan að losa um allar eignir sem tengjast óendurnýjanlegum orkugjöfum (fossil fuel investments). 

  • Norski olíusjóðurinn (Government Pension Fund Global) hefur sett ábyrgar fjárfestingar framarlega á oddinn hjá sér í uppfærðri fjárfestingarstefnu, sem verður til þess að sjóðurinn þarf að selja, eða endurfjárfesta, einhverjum hluta af sínu safni. Loftslagsmálin eru talin vera stór þáttur í fjárfestingarákvörðunum í framtíðinni og sjóðurinn hefur sett á stefnuna hjá sér að hann muni beita áhrifum sínum á fyrirtæki. Er metið sem svo að fjárhagsleg markmið fjárfestingar verði að fara saman með ábyrgum markmiðum. Hins vegar gæti afleiðingin verið sú að fjárfestingar sem dregið verður úr séu margar í nýmarkaðsríkjum þar sem stofnanaeftirlit er veikara og gagnsæi minna, en vonandi verður til þess að þau ríki sjái sér hag í því að efla stjórnarhætti til að laða áfram til sín erlendar fjárfestingar. Þá hefur sjóðurinn fjárfest í fyrsta skipti í vindorku og stefnir að frekari fjárfestingum í grænni og sjálfbærri orkuframleiðslu.

Samtal fjárfesta og fyrirtækja

Sala eigna og víðtæk takmörkun fjárfestingarheimilda er þó enn sem komið er síðasta úrræðið sem flestir fjárfestar grípa til, og er notað ef útgefandi sýnir enga viðleitni eða áhuga á því að uppfylla eða getu til að uppfylla uppfærðar fjárfestingarstefnur fjárfesta um ábyrg markmið. Ábyrgar fjárfestingar ná yfir allar fjárfestingar, hvort sem um er að ræða skráðar eða óskráðar. Á Íslandi eru óskráð lítil og meðalstór fyrirtæki mögulega ekki með tíma aflögu til að huga að því að skjala málefni sem tengjast UFS en mörg þeirra uppfylla eflaust margar kröfur fjárfesta. Fyrstu skref fjárfesta snúast því um að spyrja fyrirtæki og útgefendur spurninga um hegðun þeirra og stefnur og finna samhljóm í ábyrgri hegðun hjá fjárfestum og fyrirtækjum.

Vitundarvakning blasir við

Vitundarvakning blasir við í samfélagslegri ábyrgð og sjálfbærni. Íslensk stjórnvöld beita sér m.a. fyrir því að undirstrika mikilvægi aðgerða í loftslagsmálum við fjárfesta með því að undirbúa útgáfu á grænum ríkisskuldabréfum. En í hnotskurn eru ábyrgar fjárfestingar samstarfsverkefni fjárfesta og fyrirtækja. Stefnur og markmið eru settar niður á blað og unnið er að því að uppfylla það sem fram er lagt. Hjá fjárfestum felst það í því að meta aðkomu sína að fjárfestingum með því að gera mat á UFS þáttum og það þarf að spyrja útgefendur spurninga, ræða málin, spyrja spurninganna aftur og gera endurmat. Aukin umræða og vitundarvakning mun eingöngu leiða okkur á betri stað.

Greinin birtist í Markaðnum Fréttablaðinu þann 28. apríl 2021