Þetta snýst allt um verðbólguna
Valdimar Ármann, forstöðumaður Eignastýringar Arctica Finance.
Greinin birtist í Markaðnum Fréttablaðinu þann 7. júlí 2022
Þetta snýst allt um verðbólguna. Það þarf ekki að rifja upp hraða og þráláta hækkun verðbólgunnar en í síðustu viku mældist hún 8,8% síðastliðið ár. Hins vegar má benda á það hversu miklu aðalhlutverki verðbólgan gegnir þessi misserin og hversu mikil áhrif hún er að hafa á hagkerfin og fjármálamarkaði. Um leið og verðbólgan fer að lækka þá er svigrúm til að lækka vexti aftur; það hefur alltaf verið ljóst og Seðlabankinn ítrekaði þetta á síðasta vaxtaákvörðunarfundi þann 22. júní. En hvernig náum við verðbólgunni niður? Ein helsta vísbending um viðsnúning verðbólgunnar er þegar hægjast fer á hækkunartakti íbúðaverðs og verð á hrávörum fer að snúa. Nefndarmenn í peningastefnunefnd var frekar harðorðir á síðasta vaxtaákvörðunarfundi og í viðtölum eftir hann og ítrekuðu að mikilvægt sé að hækka vextina hratt til að hamla annarrar umferðar áhrifum verðbólgunnar, sem myndu annars lýsa sér í auknum almennum verðhækkunum samhliða auknum launakröfum.
En því miður er þetta vaxtahækkunar-raus ekki lengur trúverðugt eitt og sér, og markaðurinn er ekki að gera ráð fyrir að verðbólgubaráttan vinnist næstu árin, en verðbólguvæntingar hækkuðu þó nokkuð í aðdraganda vaxtaákvörðunar og ágerðist verðbólguóttinn sérstaklega í ljósi þess að ekkert lát er á hækkunum íbúðaverðs. Þó að vaxtahækkunin í byrjun maí hafi skilað sér í lækkandi verðbólguálagi þá er ekki sömu sögu að segja nú og veldur það þó nokkrum áhyggjum hversu lítil kjölfesta verðbólguvæntinga er orðin sem gefur að trúverðugleiki Seðlabankans sé takmarkaður.
Enda er erfitt fyrir Seðlabankann að standa einan í þessari baráttu með vaxtatækinu. Það er á suman hátt verið að refsa saklausum heimilum og fyrirtækjum fyrir hækkandi hrávöruverð, erlenda peningaprentun og fjármálalega tilraunastarfsemi ásamt framboðsskorti á húsnæði. Hér á landi þarf markvisst að styðja við framboð af húsnæði enda ljóst að viðvarandi mannfjöldaaukning hérlendis krefst þess að sífellt þarf að byggja húsnæði til viðbótar við skortinn sem er til staðar. Hvatar fyrir banka til að lána til framkvæmda og beina lánveitingum í þá átt er eitt tæki sem Seðlabankinn gæti beitt á skilvirkari hátt.
Til viðbótar má síðan benda á það enn og aftur, enda kallar Seðlabankinn sterkt á það, að aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld standi sína vakt samhliða Seðlabankanum í því að kveða niður verðbólgudrauginn.