Eignastýring

Útgefið efni

Greinar og ýmis fróðleikur eftir starfsmenn Eignastýringar Arctica Finance. Meðal efnis er umfjöllun um efnahagsmál, fjármál, umhverfismál og fleira.

  • Valdimar Ármann

Staðan á skuldabréfamarkaði tvísýn

28. apríl 2022

Viðtal við Valdimar Ármann, forstöðumann Eignastýringar Arctica Finance, birtist í Markaðnum Fréttablaðinu þann 27. apríl 2022


Valdimar Ármann, forstöðumaður eignastýringar Arctica Finance, segir að þróunin á skuldabréfamarkaði sé í rauninni ekki slæm heldur þvert á móti jákvæð.

„Það er í raun heilbrigðismerki að vextir séu að hækka því þeir hafa verið langt undir jafnvægi mjög lengi og jákvætt að þeir séu að hækka upp í jafnvægisvaxtastigið. Síðan fylgjumst við bara með hversu mikið hagkerfin og fyrirtækin þola að vextir verði hækkaðir frekar,“ segir Valdimar og bætir við að staðan sem nú sé uppi á skuldabréfamarkaði sé áhugaverð.

„Ég myndi ekki segja að hún sé slæm þó hún sé að einhverju leyti tvísýn. Það má hafa í huga að skuldabréfin eru alltaf að gefa af sér greiðsluflæði. Eigandi skuldabréfs er alltaf að fá vexti, afborganir og síðan höfuðstólinn til baka reglulega þannig hann getur verið að endurfjárfesta ört inn á markaðinn. Fjárfestar eru að njóta góðs af því að frá og með deginum í dag eru þeir að kaupa á hærri vöxtum en þeir gerðu til dæmis fyrir einu eða tveimur árum.“

Valdimar segir jafnframt að sé horft til skuldabréfamarkaðarins í sögulegu samhengi, þá hafi hann verið mjög dýr sem þýðir að ávöxtunarkrafan hafi verið mjög lág vegna þess að vextir í heiminum hafi farið lækkandi mjög lengi og sú þróun hafi gengið langt en farið sé að vindast ofan af henni.

„Það er spurning um hversu mikið við erum háð þessu lága vaxtastigi því ríkissjóðir, fyrirtæki og almenningur taka lán á þessum lágu vöxtum og það þarf að borga af lánunum, og þegar vextir hækka þá verður greiðslubyrðin dýrari. Það á eftir að koma í ljós hversu mikið hagkerfin þola af hærri vöxtum eftir samfellt skeið lækkandi vaxta.“

Valdimar segir að verið sé að herða taumhald peningastefnunnar víðs vegar í heiminum og minnka peningamagn í umferð og það hafi afleiðingar sem birtast meðal annars á skuldabréfamarkaði.

„Ávöxtunarkrafa á skuldabréfum hefur verið að hækka samhliða þessum væntingum um hækkandi skammtímavexti og verð á skuldabréfunum sjálfum sem eru útistandandi hafa farið lækkandi. Það er líka athyglisvert að sjá að skuldabréfum með neikvæða ávöxtunarkröfu fer fækkandi.“

Hann bætir við að á Íslandi sé þetta þróun sem hófst fyrir ári síðan þegar Seðlabanki Íslands hóf sitt vaxtahækkunarferli.

„Við höfum búið að því að þurfa ekki að prenta peninga eins og aðrar stórar Vesturlandaþjóðir þannig að við gátum farið að hækka vexti fyrr heldur en aðrir. Um þessar mundir er ákveðin leiðrétting í gangi hvað varðar vaxtastig. En að því sögðu, ef við horfum yfir lengra tímabil, þá munum við verða þess vör að vextir verði lægri en áður, sérstaklega hér á Íslandi, þó þeir verði ekki eins lágir og við höfum vanist undanfarin tvö ár.“