Eignastýring

Útgefið efni

Greinar og ýmis fróðleikur eftir starfsmenn Eignastýringar Arctica Finance. Meðal efnis er umfjöllun um efnahagsmál, fjármál, umhverfismál og fleira.

  • Valdimar Ármann

Síðasta kvöldmáltíðin

31. mars 2021

Eftir miklar hræringar í hagkerfum heimsins og fjámálamörkuðum stöndum við nú á ákveðnum tímamótum þegar bólusetningum vindur fram og skilyrði fara að skapast fyrir opnun landamæra aftur. Ein afleiðing faraldursins hefur verið breyting í neysluhegðun og sum fyrirtæki koma vel út úr því en önnur hafa fallið í valinn. Stuðningur ríkissjóða og Seðlabanka við hagkerfi og fjármálamarkaði hefur verið myndarlegur en það kemur að því að sleppa þurfi hendinni og áhugavert verður að sjá nýtt jafnvægi myndast.

Bjartsýnar horfur

Framtíðin virðist þó vera björt og væntingar um framtíðarhagnað fyrirtækja hafa nánast aldrei verið hærri sem endurspeglast í háu hlutabréfaverði og t.d. hefur árshækkun hlutabréfavísitölunnar í Bandaríkjunum aldrei verið meiri í sögunni. En hins vegar á sama tíma hafa vextir, bæði til skemmri tíma og lengri, aldrei verið lægri. Og enn eru vextir í lægstu gildum þó að þeir hafi tekið að hækka á lengri endanum.

Mikla árshækkun hlutabréfa má ef til vill rekja til of harkalegra viðbragða markaðarins þegar veiran byrjaði að herja á hagkerfum heimsins enda var spáð mjög djúpri kreppu vegna ferða- og samkomutakmarkana. Á þeim tíma var óvissan mikil og ekki var hægt að gera strax ráð fyrir jafn umsvifamiklum mótvægisaðgerðum seðlabanka og ríkissjóða heims eins og raunin var. Að ákveðnu leyti hafa Seðlabankar tekið markaðslögmálin úr sambandi með því að kaupa skuldabréf og jafnvel hlutabréf og þannig komið með eina stærstu lausafjárinnspýtingu á markaði í sögunni.

En hvað er næst?

Stefnan í vestrænum ríkjum og sérstaklega Bandaríkjunum virðist miða að því núna að gulltryggja hagvöxt og lækka atvinnuleysi. Hátt atvinnuleysi og aukinn ójöfnuður er ein afleiðing núverandi kreppu og mjög auknar kröfur eru um að stjórnvöld leysi það með tilheyrandi millifærsluaðgerðum og jafnvel áframhaldandi hallarekstri og skuldaaukningu. En áhættan við gegndarlausan fjáraustur og skuldaaukningu er að verðbólgan hækki og það er áhætta sem stjórnvöld virðast reiðubúin að taka. Skuldsetning ríkissjóða er nú þegar í hæstu hæðum eða stefnir þangað, og ef verðbólgan fer af stað þá verður erfiðara fyrir Seðlabanka að halda vöxtum lágum en lágir vextir eru forsenda fyrir því að ríkissjóðir geti á sjálfbæran hátt viðhaldið hárri skuldsetningu. Þessi tilraunastarfsemi í peningaprentun hefur valdið hækkun á verðbólguálagi og áhugi fjárfesta á fjárfestingarkostum sem gefa vörn gegn hækkun verðbólgunnar er að aukast umtalsvert.

Að lokum, svo sem eins og áður, er hagvöxtur eina leiðin út úr aukinni skuldsetningu ríkissjóða þ.e. skuldirnar verða ekki greiddar tilbaka heldur verða þær endurfjármagnaðar og vonandi verður hagvöxturinn hraðari en skuldasöfnunin og vaxtabyrðin. Þannig næst aftur viðunandi jafnvægi og síðasta kvöldmáltíðin ekki enn verið framreidd.

Greinin birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins þann 31. mars 2021