Eignastýring

Útgefið efni

Greinar og ýmis fróðleikur eftir starfsmenn Eignastýringar Arctica Finance. Meðal efnis er umfjöllun um efnahagsmál, fjármál, umhverfismál og fleira.

  • Vanesa Hoti
    Vanesa Hoti

Samfélagsleg ábyrgð og fjárfestingar

17. janúar 2022

Eftir Vanesu Hoti, sérfræðing í Eignastýringu Arctica Finance.
Greinin birtist í Vísbendingu þann 7. Janúar 2022 (1. tölublað, 40. árgangur)
Loftslagsáhætta og samfélagsleg ábyrgð hefur verið mikið umræðuefni síðustu misseri og ekki síður vegna COP26 ráðstefnunnar í Glasgow. Margt bendir til þess að hlýnun jarðar og aðgerðir því tengdu séu stærsta áskorun sem við stöndum frammi fyrir í dag. Þetta kallar á að allir leggi sitt af mörkum til að bregðast við með markvissum aðgerðum. Loftslagsáhætta hefur verið þekktur vandi nokkuð lengi en það er ekki fyrr en nýlega að töluvert fleiri eru að átta sig á því að bregðast þurfi við samstundis.

Vitundarvakning um lofslagsbreytingar

Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna gaf út skýrslu síðastliðinn ágúst sem vakti athygli, en um er að ræða miklar framfarir í vísindalegum rannsóknum vegna loftslagsbreytinga1. Gögnin sem nú liggja fyrir eru enn ítarlegri um afleiðingar loftslagsbreytinga og vísindalegar rannsóknir tengja nú betur loftslagsbreytingar við breytt veðurfar. Sérfræðingar halda því fram að skýrslan sé vakning til allra þeirra ríkisstjórna sem hafa ekki enn lagt fram raunhæfar áætlanir um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á næsta áratug.

Stærstu seðlabankar heims taka þátt í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og telja að það sé áhættusamara að gera ekkert. Fjöldi rannsókna benda til þess að loftslagsbreytingar valdi efnahagi heimsins áhættu til lengri tíma, þar með talið verðbólgu og fjármálaóstöðugleika. Seðlabankastjórar huga nú að aðgerðum til að hafa áhrif á að fjármagn fari í grænni fjárfestingar og Seðlabankastjóri Íslands upplýsti nýlega í viðtali í Kastljósinu að Ísland sé að einhverju leyti að vinna í sömu átt og seðlabankarnir úti. Að hans sögn er Ísland nálægt því að vera grænt hagkerfi og segir að hérlendis hafi verið tekin mörg rétt skref síðustu ár.

Nýlega gaf Seðlabanki Íslands út yfirlýsingu í loftslagsmálum og kemur þar fram að seðlabankinn stefnir að kolefnishlutleysi í eigin starfsemi og sett hafa verið þau markmið að minnka kolefnisfótspor bankans um 40% fyrir árið 2030. Seðlabankinn er nú meðlimur samtaka um grænni fjármálagerninga (e. Network for Greening the Financial System, NGFS) ásamt 100 öðrum seðlabönkum um allan heim.  Áhersla er lögð á að vinna í því að þróa bestu framkvæmd áhættustýringar í fjármálageiranum í tengslum við loftslags- og umverfismál ásamt því að stuðla að sjálfbærri og umhverfisvænni fjárfestingu.

Skuldbinding stjórnvalda og lífeyrissjóða

Þekking og áhugi á umhverfismálum hefur aukist meðal almennings og eru fyrirtæki að verða fyrir auknum þrýstingi frá fjárfestum, starfsmönnum, viðskiptavinum, frjálsum félagasamtökum, opinberum aðilum og fjölmörgum öðrum hagsmunaaðilum þegar kemur að sjálfbærni og samfélagslega ábyrgum starfsháttum. Ísland er þátttakandi í Parísarsamkomulaginu og hefur skuldbundið sig frá árinu 2005 að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 29% fram til ársins 2030, en árið 2019 mældist einungis um 8% samdráttur.2 Stjórnvöld hafa einnig sett sér markmið að vera kolefnishlutlaus fyrir árið 2040 og vera laus við jarðefni og eldsneyti fyrir árið 2050. Til að ná þessum markmiðum hafa stjórnvöld sett fram 48 aðgerðir, þar af 15 nýjar sem var bætt við eftir að fyrsta útgáfa áætlunarinnar var gefin út haustið 2018.3 Þetta mun setja auknar kröfur á íslensk fyrirtæki og eru aðgerðir fyrirtækja í loftslagsmálum mikilvægar svo hægt sé að standast þessi markmið.

Nýlega var haldin loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, COP26, og skrifuðu lífeyrissjóðir frá öllum Norðurlöndum og Bretlandi undir að veita 130 milljörðum Bandaríkjadala til loftslagsmála og fjárfestinga í verkefni sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda fram til ársins 2030. Hérlendis ætla þrettán lífeyrissjóðir að styðja við markmið um að draga úr losun á heimsvísu með því að stórauka grænar fjárfestingar fyrir 580 milljarða króna.

Kynslóðabreyting hefur áhrif

Sá hópur sem hefur hvað mestan áhuga á sjálfbærum og ábyrgum fjárfestingum er yngri kynslóðin. Rannsóknir sýna að þau eru tilbúin til að gefa meira af sér til að hafa jákvæð áhrif á umhverfið og stjórnarhætti fyrirtækja.4 Margir gera ráð fyrir að sjóðir sem taka mið af umhverfislegum þáttum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum, skammstafað UFS (eða ESG á ensku, þ.e. environmental, social og governance) verði enn vinsælli eftir því sem yngri kynslóðirnar fara að fjárfesta meira. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar Morgan Stanley, sem gerð var árið 2019, voru 85% einstakra fjárfesta sem höfðu áhuga á sjálfbærum fjárfestingum, sem er 10 prósentustigum meira en frá árinu 2017, en áhugi fjárfesta aldamótakynslóða (e. Millenials) var 95%, sem er 9 prósentustigum meira en frá árinu 2017.5 Aukinn áhugi á ábyrgum fjárfestingum hefur leitt til þess að stór sjóða- og eignastýringarfyritæki heims fjárfesta með ábyrgum hætti með því að taka mið af UFS þáttum. Sem dæmi má nefna Black Rock, með um sjö þúsund milljarða Bandaríkjadali í stýringu, sem hefur sett loftslagsbreytingar í forgang í fjárfestingastefnu sinni og mun þetta hafa veruleg áhrif á mörg fyrirtæki.

Ábyrgar fjárfestingar stuðla að jákvæðum breytingum

Markmiðið með ábyrgum fjárfestingum er að skapa ný tækifæri fyrir fjárfesta og hafa áhrif á jákvæðar breytingar og á sama tíma skapa verðmæti. Talið er að til framtíðar verði UFS þættir náttúrulegur partur af fjárfestingarákvörðunum allra. Rannsókn sem gerð var á heimsvísitölu MSCI sýnir að fyrirtæki sem leggja áherslu á sjálfbærni og skora hátt í UFS þáttum, hafi skilað betri ávöxtun en önnur.6 Þetta gefur til kynna að fjárfestar geti fengið góða ávöxtun og á sama tíma haft jákvæð áhrif og stuðlað að betra samfélagi. Þó er mikilvægt að hafa í huga að það er ólíklegt að fyrirtæki nái að skora hátt í öllum UFS þáttum og hafa yfirleitt einhverskonar forgangsröðun. Fjárfestar þurfa þess vegna að ákveða hvaða atriði skipta þá mestu máli og hvað það er sem þau vilja hafa áhrif á.

Kostir fyrir fjárfesta í ábyrgum fjárfestingum er fyrst og fremst að minnka áhættu og á sama tíma ná góðri ávöxtun til lengri tíma. Ábyrg fjárfesting er því talin vera góð langtímafjárfesting. Sem dæmi má nefna að á fyrsta ári Covid -19 heimsfaraldursins stóðu sjóðir með UFS viðmið betur en aðrir sjóðir samkvæmt skýrslu sem S&P Global birti.7

Mikill vöxtur í UFS fjárfestingum

Í Bandaríkjunum eru UFS þættir leiðandi meðal fjárfesta og má reikna með því að það hafi áhrif á fjárfesta í Evrópu og öðrum þjóðum. Árið 2020 nam hreint innstreymi um 51,1 milljarði Bandaríkjadala frá fjárfestum í sjóði sem beita UFS þáttum við ákvarðanatöku, sem er fimmta ársmetið í röð samkvæmt skýrslu frá Morningstar.8

Í skýrslu frá Deloitte sem gefin var út 2020 kemur fram að með betri tækni sem leiðir til betri gagna og greininga á UFS eignum muni eignasöfn í auknum mæli innihalda fleiri UFS eignir, og árlegur vöxtur þeirra verði um 16%, og muni nema samtals 35 þúsund milljörðum Bandaríkjadala árið 2025.9

Tölur eru í þúsundum milljörðum Bandaríkjadala. Heimild: Deloitte, febrúar 2020

Vegferðin til samfélagslegrar ábyrgðar og sjálfbærni

Fyrirtæki og fjárfestar geta farið ýmsar leiðir til að vera samfélagslega ábyrg. Mikilvægt er að fyrirtæki sem segjast taka mið af UFS þáttum, mæli árangur sinn og sýni frammistöðu með því að skila af sér UFS upplýsingum sem skýra fjárhagslegan árangur fyrirtækisins. Þau sem gera það ekki eru líkleg til að falla undir grænan þvott (e. Green washing). Eftirfylgni og upplýsingagjöf eru bæði mikilvæg í vegferð ábyrgari fjárfestinga. Hægt er að beita ýmsum aðferðum til þess að forðast siðferðilega vafasöm viðskipti. Á heimasíðu Iceland Sif, samtök fjárfesta um ábyrgar fjárfestingar, er hægt að nálgast ítarlegri upplýsingar um hverja aðferð fyrir sig.

Til þess að ná þeim markmiðum sem stuðla að betri framtíð, bæði fyrir okkur og komandi kynslóðir, er ekki einungis mikilvægt að fjárfesta í þeim fyrirtækjum sem eru nú þegar samfélagslega ábyrg, heldur þarf líka að hvetja áfram önnur fyrirtæki til að verða það. Fjárfestar geta hvatt þau fyrirtæki sem þau eru nú þegar að fjárfesta í að bæta UFS áhættustýringu sína eða þróa sjálfbærari viðskiptahætti með því að ræða um UFS málefni við þau. Með aukinni fræðslu er hægt að fá fólk til að huga að betri jákvæðum lausnum sem hafa áhrif til lengri tíma.

Langtímahugsun en aðgerðir í dag

Breytingar taka yfirleitt langan tíma og er ferlið í stöðugri þróun, innleiddar hafa verið greiningar og mælikvarðar til að sjá hvar fyrirtækin standa þegar kemur að loftslagsmálum og samfélagslegri ábyrgð.  Fyrirtæki eru komin mislangt í þessum málum og eru mörg að taka sín fyrstu skref í grænni áttir. Fleiri fyrirtæki hafa sett stefnu um ábyrgar fjárfestingar og birta ófjárhagslegar upplýsingar, sem fjárfestar eru í auknum mæli farnir að krefjast. Samræmd upplýsingagjöf skiptir ekki síst máli og þarf að vera skýr, en þar er hægt að byggja m.a. á UFS leiðbeiningum kauphallar Nasdaq.

Heimildir

[1] IPCC. Climate change 2021: The Physical Science Basis: https://www.ipcc.ch/report/sixth-assessment-report-working-group-i/ .

[2] Umhverfisstofnun. Samdráttur í losun gróðurhúsalofftegunda: https://ust.is/umhverfisstofnun/frettir/stok-frett/2021/04/26/Samdrattur-i-losun-grodurhusalofttegunda/ .

[3] Stjórnarráð Íslands. Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum: https://www.stjornarradid.is/library/02-Rit--skyrslur-og-skrar/Adgerdaaetlun%20i%20loftslagsmalum%20onnur%20utgafa.pdf.

[4] Younger generations driving the shift towards ESG: https://www.privatebankerinternational.com/news/younger-generation-esg-sustainability/ .

[5] Morgan Stanley Institute for Sustainable Investing: Sustainable Signals - The Individual Investor Perspective (2019).

[6] MSCI ESG Research: https://www.msci.com/our-solutions/esg-investing/2021-esg-trends-to-watch/esg-investment-finds-footing .

[7] S&P Global. ESG funds beat out S&P 500 in 1st year of COVID-19; how 1 fund shot to the top: https://www.spglobal.com/marketintelligence/en/news-insights/latest-news-headlines/esg-funds-beat-out-s-p-500-in-1st-year-of-covid-19-how-1-fund-shot-to-the-top-63224550 .

[8] Morningstar. Sustainable funds U,S, Landscape report: https://www.morningstar.com/lp/sustainable-funds-landscape-report .

[9]Deloitte. Advancing environmental, social, and governance investing - A holistic approach for investment management firms: https://www2.deloitte.com/content/dam/insights/us/articles/5073_Advancing-ESG-investing/DI_Advancing-ESG-investing_UK.pdf .