Eignastýring

Útgefið efni

Greinar og ýmis fróðleikur eftir starfsmenn Eignastýringar Arctica Finance. Meðal efnis er umfjöllun um efnahagsmál, fjármál, umhverfismál og fleira.

  • Valdimar Ármann

Ládeyða á markaði eða áhugaleysi á borgarsjóði

23. ágúst 2022

Viðtal við Valdimar Ármann, forstöðumann Eignastýringar Arctica Finance, birtist í Viðskiptablaðinu  þann 18. ágúst 2022.

Í Viðskiptablaðinu var fjallað um nýlegar skuldabréfaútgáfur Reykjavíkurborgar og talaði blaðamaður við Valdimar Ármann, forstöðumann Eignastýringar Arctica Finance.

Áhugaleysi á skuldabréfamarkaðnum

Takmarkaður áhugi virðist hafa verið á meðal fjárfesta í síðustu tveimur skuldabréfaútboðum borgarinnar. Þann 22. júní efndi borgin til útboðs á tveimur verðtryggðum skuldabréfaflokkum, RVK 32 og RVK 53. Gaf borgin það út að hún stefndi að því að taka tilboðum að fjárhæð 2,5 milljörðum króna. Heildartilboð í styttri flokkinn voru einungis 650 milljónir króna og var ákveðið að taka tilboðum fyrir hálfan milljarð. Þá bárust engin tilboð í lengri flokkinn. Í liðinni viku efndi borgin aftur til útboðs á tveimur skuldabréfaflokkum, RVK 32 og RVKNG 40. Aftur gaf borgin það út að stefnt væri að því að taka tilboðum fyrir 2,5 milljarða. Öllum tilboðum í RVK 32 var tekið, að markaðsvirði 1.455 milljónum króna en öllum tilboðum sem bárust í lengri flokkinn var hafnað.

Þó einhver ládeyða virðist hafa verið á skuldabréfamarkaði síðan um miðjan júlí hafa verið gefin út skuldabréf fyrir um 11 milljarða síðan í byrjun júní. Valdimar Ármann, forstöðumaður eignastýringar Arctica Finance, nefnir að lítill áhugi fjárfesta á útboði Reykjavíkurborgar í júní gæti hafa orsakast af verðlagningu bréfanna - krafan á öðrum bréfum hafi verið betri á þeim tímapunkti og verðið á Reykjavíkurbréfunum því hærra. „Mikil umræða hafði verið um fjármál borgarinnar og aukna skuldsetningu. Ætla má að fjárfestar hafi horft til þess að borgin þyrfti sennilega að auka í útgáfuna til að fjármagna hallareksturinn.“ Aftur á móti sé erfiðara að draga ályktanir út frá útboðinu í síðustu viku. „Verðlagningin á bréfunum sem borgin var að bjóða þá hafði batnað aðeins síðan í júní en árstíminn hefur klárlega sett sitt mark á þátttökuna líkt og sást í útboði Lánamála í síðustu viku.“

Búið að verðleggja hallareksturinn inn í skuldabréf borgarinnar?

Valdimar segir áhugavert að skoða muninn á ávöxtunarkröfu verðtryggðra skuldabréfa Lánasjóðs sveitarfélaga annars vegar (LSS 34) og Reykjavíkurborgar hins vegar (RVK 32). Í dag er krafa RVK bréfanna 10 punktum hærri (1,91% samanborið við 1,81% á LSS34) en slíkt var ekki alltaf tilfellið. Reykjavíkurborg fjármagnaði sig á tímabili á lægri kjörum en Lánasjóður sveitarfélaga. „Reykjavík er stærsta sveitarfélagið og ætti því að hafa minnsta áhættuálagningu á meðal þeirra, en að sama skapi er Lánasjóður sveitarfélaga með ákveðið eigið fé og veðmöguleika í útsvarstekjum.“ Það að ávöxtunarkrafa skuldabréfa Reykjavíkurborgar sé nú orðin hærri gefur að sögn Valdimars til kynna að markaðurinn sé búinn að verðleggja hallarekstur borgarinnar inn í kröfuna. „Hærri vextir gætu hugsanlega laðað fjárfesta að aftur en við munum líklega ekki sjá það almennilega fyrr en með haustinu.“

Tækifæri til frekari skuldabréfaútgáfu

Þá nefnir Valdimar að heildar-skuldabréfaútgáfa á árinu sé í raun ekki mikil sem ætti að henta Reykjavíkurborg ágætlega miðað við sína útgáfuáætlun. „Ríkissjóður dró töluvert úr sinni fjármögnunarþörf á árinu en einnig eru gömlu verðtryggðu íbúðabréfin farin að greiðast frekar hratt upp. Þegar fjárfestar fá endurgreiðslur af íbúðabréfunum geta þeir til að mynda fjárfest í skuldabréfum borgarinnar Í ljósi þess hversu stór aðili ríkissjóður er yfirleitt á skuldabréfamarkaði, þá er þetta ekki mjög slæmur tími fyrir borgina til að auka sína útgáfu.“