Eignastýring

Útgefið efni

Greinar og ýmis fróðleikur eftir starfsmenn Eignastýringar Arctica Finance. Meðal efnis er umfjöllun um efnahagsmál, fjármál, umhverfismál og fleira.

  • Valdimar Ármann

Framsýn leiðsögn Seðlabankans

14. september 2021

Greinin birtist í Markaðnum Fréttablaðinu þann 8. september 2021



Almenn umræða er nú um þróun vaxta enda hefur það vakið athygli hversu mikið vextir hafa lækkað, samhliða því að aðgengi og áhugi almennings á óverðtryggðum íbúðalánum hefur aukist umtalsvert. Núna þegar hagkerfið jafnar sig á bakslaginu sem fylgdi samkomu- og ferðatakmörkunum vegna Covid faraldursins þá er vaxtastefna Seðlabankans að snúa og vaxtahækkunarferli hafið. Óhjákvæmilega hefur það áhrif á vexti á nýjum útlánum en einnig á lán með breytilegum vöxtum. Virkni vaxtahækkana er því meiri en áður á greiðslubyrði og er það jákvæð þróun að vaxtastefna vekji almenna athygli.

Taylor´inn, verðbólga og hagvöxtur

Vaxtaákvarðanir Seðlabanka þurfa að vera gagnsæar og samkvæmt lögum á Seðlabankinn að halda verðbólgu í skefjum eða í 2,5% árlegum takti. Samkvæmt svonefndri Taylor jöfnu ákvarða tvær meginbreytur skammtímavexti þ.e. verðbólguvæntingar ásamt framleiðsluspennu eða -slaka í hagkerfinu. Tvær aðrar breytur eru mat á jafnvægisvöxtum og svo sjálft verðbólgumarkmiðið.

Í hnotskurn eru það því verðbólga og umsvifin í hagkerfinu sem hafa mestu áhrifin á vaxtaákvarðanir. Hér má hafa í huga að horft er til verðbólgu fram í tímann; það skiptir ekki öllu máli hver verðbólgan er í dag ef væntingar eru til þess að hún náist í markmið. Það má því búast við því að lægra atvinnuleysi, hærri hagvöxtur og há verðbólga sé líklegt til að valda vaxtahækkunum. Og síðan öfugt ef atvinnuleysi er hátt, hagvöxtur lágur og verðbólga lág að þá sé það tilefni til vaxtalækkana.

Gagnsæi og framsýn leiðsögn

Það er því ákveðið gagnsæi í vaxtaákvörðunarferlinu sem byggir í grunninn á tölum um spennu eða slaka í hagkerfinu og verðbólguhorfum. Framsýn leiðsögn Seðlabankans og trúverðugleiki virðast vera í nokkuð góðum skorðum. Það sést af því að Seðlabankinn hefur nú í tvígang hækkað vexti um 0,25% og skuldabréfamarkaðurinn sveiflast ekki mikið í kjölfarið. Vaxtaákvörðun Seðlabankans á ekki að vera óvænt tíðindi, enda er hann einfaldlega að bregðast við aðstæðum í hagkerfinu og væntingum. Líklegt er að vextir verði hækkaðir áfram á þessu ári í hóflegum skrefum og í framhaldinu er útlit fyrir frekari vaxtahækkanir eftir því sem slakanum í hagkerfinu vindur niður, atvinnuleysi minnkar og verðbólga hjaðnar. Skuldabréfamarkaðurinn verðleggur áframhaldandi vaxtahækkanir og framvirkir vextir sýna væntingar um stýrivexti í jafnvægisstigi eftir 2-3 ár. Hins vegar erum við ekki að fara í gamla far hávaxtastefnunnar og ef vel tekst til, þá verða vextir hér á landi varanlega lægri til framtíðar.