Afleiðingar stríðsátaka - Fréttaumfjöllun
Viðtöl við Valdimar Ármann forstöðumann eignastýringar Arctica Finance hafa birst nýverið í Fréttablaðinu og hjá Innherja þar sem umfjöllunarefnin voru afleiðingar innrásar Rússa inn í Úkraínu og áhrifin á íslenskt hagkerfi og fjármálamarkaði.
Í umfjöllun Innherja þann 8. mars undir fyrirsögninni „Seðlabankinn í þröngri stöðu, gæti þurft að hækka vexti ofan í kreppuverðbólgu“, var meðal annarra talað við Valdimar.
Allir tapa á þessu ömurlega stríði Pútíns,“ segir Valdimar Ármann, forstöðumaður eignastýringar Arctica Finance, en efnahagshorfur beggja vegna Atlantshafsins eru orðnar mun dekkri en áður eftir að stríðsátökin í Úkraínu hófust fyrir tólf dögum síðan.
„Hagvöxtur er að fara minnkandi í heiminum vegna innrásar Rússa og minni alþjóðlegra viðskipta og samhliða þeirri þróun sjáum við ört vaxandi verðbólgu sem þýðir að staða Seðlabanka Íslands, eins og annarra seðlabanka, verður mjög erfið varðandi næstu skref í vaxtahækkunarferlinu. Hann gæti þurft að hækka vexti ofan í versnandi efnahagshorfur og sviðsmynd um kreppuverðbólgu, tímabil sem einkennist af litlum hagvexti og mikilli verðbólgu, gæti mögulega verið að raungerast, að minnsta kosti í einhverjum löndum,“ útskýrir Valdimar.
Hann bendir á að viðbrögð markaðarins á skuldabréfamarkaði að undanförnu séu að skila sér í umtalsvert hærri verðbólguvæntingum með ásókn í verðtryggðra vexti. Fjárfestar hafa þannig meðal annars verið að kaupa verðtryggð íslensk ríkisskuldabréf, til að tryggja sig gegn verðbólgu sem þeir reikna með að verði meiri en áður var búist við, og á sama tíma selt óverðtryggð ríkisbréf.
Í Fréttablaðinu þann 9. mars var birt stutt innslag um hækkandi verðbólguvæntingar á skuldabréfamarkaði í umfjöllun um áhrif stríðsins á íslenskt hagkerfi og markaði.
Það er ljóst að innrásin hefur þær afleiðingar að hrávöruverð hefur hækkað og mun að öllum líkindum halda áfram að hækka. Ekki er bara verið að horfa á hækkanir á olíu og gasi heldur hefðbundnum neysluvörum og matvælum. Rússland og Úkraína eru útflytjendur á áburði sem er notaður af stórum hluta heimsins og flytja löndin einnig út mikið korn,“ segir Valdimar og bætir við að ekki megi gleyma að Rússland flytur út mikið af gasi og olíu sem enginn sé að kaupa núna. „Við erum að sjá mestu hækkun til skamms tíma á þessum markaði sem sést hefur í tugi ára. Það mun leiða inn í íslenska verðbólgu. Minnkun á viðskiptum og öðru slíku mun gera það að verkum að hagvöxtur eða hagvaxtarspár í heiminum eru að lækka. Það getur leitt til þess að staða seðlabanka verði ansi snúin með að hækka vexti til að bregðast við verðbólgu ofan í hagkerfi sem eru ekki að skila miklum hagvexti.“